Salt-karamellu Crème Brûlée

IMG_2578

Ég prófaði að búa til Crème Brûlée í fyrsta sinn um páskana. Ég hélt alltaf að það væri svo erfitt að búa til réttinn en komst að því um helgina að það er auðveldara en ég hélt. Ég ákvað að poppa aðeins upp á þetta klassíska Crème Brûlée og búa til salt-karamellu útgáfu. Uppskriftin er í stærri kantinum, hún dugar í um það bil 15-17 lítil Crème Brûlée form en auðvitað er hægt að setja í stærri form. Ég bauð upp á þennan eftirrétt í matarboði þar sem voru 7 manns, hver fékk því 2-3 lítil Crème Brûlée sem var alveg nóg :) Það er samt auðveldlega hægt að minnka uppskriftina, munið bara að minnka uppskriftina af salt-karamellunni líka.

IMG_2442IMG_2449IMG_2451IMG_2455IMG_2459IMG_2462IMG_2478-2IMG_2480IMG_2485IMG_2498IMG_2504IMG_2513IMG_2518IMG_2527IMG_2576

Salt-karamellu Crème Brûlée
Print
Salt-karamellan
 1. 100 gr sykur
 2. 45 gr smjör
 3. 60 ml rjómi
 4. ½ - 1 tsk sjávarsalt
Crème Brûlée
 1. 3 bollar rjómi
 2. 2 vanillustangir
 3. 1/2 bolli + 4 matskeiðar sykur
 4. 8 eggjarauður
 5. Salt-karamella
 6. Flórsykur eða strásykur fyrir sykurbráð ofan á
Salt-karamellan
 1. Byrjið á því að setja sykurinn í pott. Hitið sykurinn við vægan hita og fylgist vel með honum. Sykurinn byrjar á því að mynda kekki en mun að lokum bráðna og breytast í þykkan brúnan vökva.
 2. Þegar sykurinn er alveg bráðnaður skaltu bæta smjörinu við. Gerðu það samt varlega vegna þess að þegar því er bætt við kraumar karamellan og auðvelt er að brenna sig. Hrærðu í 2-3 mínútur þar til smjörið er allt bráðnað.
 3. Að því loknu skaltu hella rjómanum mjög varlega við blönduna. Vegna þess að rjóminn er mun kaldari en karamellublandan þá mun hún krauma mikið þegar rjómanum er bætt út í.
 4. Leyfðu blöndunni að sjóða í smástund, 1-3 mínútur, lengur ef hún er í þynnri kantinum. Passið ykkur bara að brenna hana ekki.
 5. Taktu blönduna af hellunni og bættu við sjávarsalti.
Crème Brûlée
 1. Hitið ofninn í 160 °C.
 2. Skerið vanillustöngina í tvennt og skafið vanillukornin innan úr þeim.
 3. Setjið rjómann, salt-karamelluna, sykurinn, vanillukornin og vanillustangirnar saman í stóran pott.
 4. Hitið á miðlungshita þar til blandan fer að sjóða. Hrærið í svo að karamellan leysist upp.
 5. Þegar blandan er farin að sjóða takið hana þá af hellunni og setjið lok yfir. Látið standa í 10-15 mínútur undir lokinu. Fjarlægið vanillustangirnar.
 6. Hrærið saman eggjarauðurnar og 4 matskeiðar af sykri þar til blandan er orðin léttari og ljósgul.
 7. Hrærið karamellurjóma-blöndunni hægt og rólega saman við eggin og sykurinn.
 8. Setið form í ofnskúffu eða eldfast mót. Hellið vatni þannig það nái upp að hálfu Crème Brûlée forminu.
 9. Hellið Crème Brûlée blöndunni í formin. Setjið slatta í formin en passið samt að fylla þau ekki alveg.
 10. Formin fara inn í ofn í um það bil 40-50 mínútur. Það fer auðvitað allt eftir stærð formanna sem notuð eru hversu langan tíma formin eru inni í ofninum. Til athuga hvort rétturinn sé tilbúinn finnst mér gott að opna ofninn og snerta búðinginn létt þegar 40-45 mínútur eru liðnar. Ef ég finn að hann er farinn að stífna þá veit ég að hann er tilbúinn.
 11. Þegar formin eru komin úr ofninum skuluð þið taka þau úr vatnsbaðinu og leyfa þeim að standa i 20 mínútur. Þá fara þá inn í ísskáp þar sem þau sitja í að minnsta kosti 2-3 klukkutíma áður en þau eru borin fram.
 12. Sykurbráðin ofan á er gerð rétt áður en rétturinn er borinn fram. Ég strái alltaf smá flórsykri eða hrásykri á hvert Crème Brûlée og nota svo brennarann til að brenna hann og búa til sykurbráðina.
Notes
 1. Ég hef reyndar aldrei prófað það en ég er nokkuð viss um að það sé hægt að gera sykurbráðina öðruvísi ef þið eigið ekki brennara. Til dæmis er hægt að setja formin aftur inn í ofn en passið að hafa hann stilltan á grill. Setjið formin ofarlega svo þau séu nálægt grillinu. Það ætti ekki að taka lengri tíma en 5-10 mínútur að myndast sykurbráð en fylgist samt vel með svo að það brenni ekki við. Gerið ráð fyrir þeim aukatíma sem það tekur fyrir réttinn að kólna aftur áður en þið berið það fram.
 2. Gott að strá grófu sjávarsalti yfir þegar þið eruð búin að gera sykurbráðina.
RAGS 'N' ROSES https://www.ragsnroses.com/
Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.