Dulce de leche ostakaka

IMG_2033

Þessi ostakaka er alveg ótrúlega góð og sló í gegn hjá öllum sem smökkuðu hana hjá mér núna um helgina! Hráefnið í hana er reyndar í dýrari kantinum en mér fannst það samt eiginlega þess virði vegna þess að hún var svo hrikalega góð! Tilvalin sparikaka og hentar vel sem eftirréttur.
Ég bjó sjálf til kexbotninn en auðvitað er alveg hægt að kaupa það kex sem manni finnst gott og nota það. Það er líka töluvert auðveldara en mér finnst bara svo skemmtilegt að elda og baka alveg frá grunni.
Dulce de leche karamellan sem er ofan á kökunni er ótúlega góð. Aðferðin sem er notuð til að búa hana til er nokkuð sérstök en mjög auðveld. Hægt er að nota karamelluna í allskonar bakstur, til dæmis hef ég smakkað makrónur með dulce de leche karamellu á milli sem var mjög gott. Örugglega líka gott að nota hana sem sósu með ís.
Ég mæli með því að nota smelluform þegar kakan er bökuð, ég hef ekki prófað að baka hana öðruvísi en ég get vel trúað að það sé erfiðara að ná henni úr forminu.

IMG_1956 Sæt mjólk (sweet condensed milk) sem er notuð til að búa til dulce de leche karamellu

IMG_1957IMG_1974Svona lítur sæta mjólkin út þegar hún hefur verið soðin í heitu vatni

IMG_2045IMG_2011

IMG_1993

Dulce de Leche ostakaka
Print
Kex
 1. 210 gr hveiti
 2. 40 gr haframjöl
 3. Salt á hnífsoddi
 4. ½ tsk kanill
 5. ½ tsk lyftiduft
 6. 150 gr smjör, lint
 7. 110 gr púðursykur
 8. 1 og ½ tsk hunang
Kexbotn
 1. 300 gr af kexi sem bakað var eftir uppskrift hér að ofan eða keypt
 2. 80 gr smjör
Ostakakan
 1. 650 gr rjómaostur við stofuhita
 2. 250 gr sykur
 3. 220 gr hvítt súkkulaði
 4. ½ bolli rjómi
 5. 5 egg
 6. 1 tsk vanilludropar
 7. Salt á hnífsoddi
Dulce De Leche (karamella)
 1. Ein dós af sætri mjólk (sweet condensed milk) - Ég keypti dósina í Melabúðinni, hef alltaf fengið sæta mjólk þar.
 2. Vatn
Kex
 1. Ofninn hitaður í 180 °C.
 2. Hveiti, haframjöl, salt, lyftiduft og kanil er hrært saman í skál og sett til hliðar.
 3. Smjör, púðursykur og hunang er hrært saman á miðlungshraða þar til blandan verður létt, í um það bil 2-3 mínútur.
 4. Bætið blöndunni sem tekin var til hliðar við og hrærið saman.
 5. Takið deigið upp úr skálinni og setjið á slétt yfirborð og hnoðið vel.
 6. Takið smá deig í einu og fletjið það út á milli lófanna eða búið til litlar kúlur og setjið á plötu með smjörpappír. Það skiptir ekki miklu hvernig það lítur út vegna þess að kexið fer í matvinnsluvél þegar það er tilbúið.
 7. Bakið í 8-10 mínútur eða þar til kexin fara að dökkna. Það gæti verið að eitthvað kex verði afgangs þegar botninn er búinn til en kexið er svo gott að það er allt í lagi.
Kexbotn
 1. Kexið er mulið í matvinnsluvél
 2. Smjörið er brætt og kexinu blandað saman við
 3. Blöndunni er hellt í smelluformi. Ég setti smjörpappír í botninn á mínu smelluformi.
 4. Bakað í 10 mínútur við 180°C
 5. Botninn er látinn kólna alveg áður en rjómaostafyllingunni er hellt yfir
Ostakakan
 1. Rjómaosturinn er settur í skál og hrærður á miðlungshraða þar til hann verður mjúkur og engir kekkir sjást í honum.
 2. Sykrinum er hrært saman við rjómaostinn, ennþá á miðlungshraða.
 3. Á meðan er rjóminn er hitaður en ekki á of háum hita.
 4. Hvíta súkkuaðið er sett í skál og heitum rjómanum er hellt yfir.
 5. Hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðnað.
 6. Hellið súkkulaði-rjómablöndunni saman við rjómaost-og sykurblönduna á meðan hrært er í á miðlungshraða.
 7. Bætið eggjum út í, einu í einu. Hrærið á litlum hraða og ekki bæta öðru eggi við fyrr en hinu hefur verið hrært vel saman við blönduna.
 8. Að lokum eru vanilludropum og salti bætt við.
 9. Blandan ætti að verða nokkuð þunn en það er eðlilegt.
 10. Hellið rjómaostablöndunni ofan á kexbotninn.
 11. Passið að smelluformið leki ekki. Gott ráð er að setjið álpappir á ytri hluta formsins.
 12. Komið smelluforminu fyrir í ofnskúffu eða öðru fati sem er stærra en formið og hellið sjóðandi vatni í. Vatnið þarf að ná upp að hálfu formi.
 13. Setjið kökuna inn í ofn sem er stilltur á 160°C í 60 mínútur.
 14. Eftir þann tíma skaltu lækka hitann í 150°C og láta kökuna bakast í 60-90 mínútur í viðbót eða þar til miðjan er ekki lengur mjúk. Ég bakaði mína í 75 mínútur aukalega við klukkutímann.
 15. Þegar kakan er komin úr ofninum þarf hún að fá að kólna alveg áður en hún er sett inn í ískáp en þar þarf hún að vera í að minnsta kosti 4 tíma. Ekkert mál að geyma hana yfir nótt í ískáp áður en hún er borin fram. Takið hana varlega úr forminu.
Dulce De Leche (karamella)
 1. Takið allt bréfið utan af dósinni.
 2. Setjið hana í nógu stóran pott, ég nota djúpan súpupott.
 3. Dósin þarf að liggja á hliðinni, passa að hún standi ekki upprétt.
 4. Hellið vatni í pottinn og passið að það nái ca. 2-3 cm upp fyrir dósina.
 5. Sjóðið í vatninu í 2-3 tíma.
 6. Ég sauð í 2 tíma og mér fannst karamellan alveg passleg eftir það, hún verður dekkri því lengur sem dósin er í sjóðandi vatni. Á meðan hún er að sjóða þarf bara að passa að vatnið sé aldrei fyrir neðan brún dósarinnar, fínt að kíkja á hálftíma fresti og bæta vatni við ef þess þarf.
 7. Þegar tíminn er búinn takiði dósina úr pottinum með töngum.
 8. Það er mikilvægt að opna dósina ekki fyrr en hún er orðin alveg köld. Það myndast mikill þrýstingur í dósinni þegar hún hitnar og þess vegna er hætta á því að karamellan skvettist úr dósinni ef hún er opnuð þegar hún er ennþá heit.
Í lokin
 1. Karamellunni er smurt á kökuna þegar hún hefur setið í kæli í að minnsta kosti 4 tíma.
 2. Mæli með því að strá smá sjávarsalti yfir kökuna þegar karamellan er komin á.
RAGS 'N' ROSES https://www.ragsnroses.com/
Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Omnom súkkulaðiskólinn
Ég kom karlinum á óvart í desember síðastliðnum og tók hann með mér í súkkulaðiskólann hjá Omnom. Þar lærðum við allt um framleiðsl...
- Jólalakkrísinn frá Hafliða -
Ég skrapp á jólakvöld Garðheima þegar það var haldið í byrjun nóvember og kom heim með eina dollu af jólalakkrísnum frá Hafliða. Í fyrra keyp...
Konfekt með þrenns konar fyllingu: Hockey Pulver, saltkaramellu og piparmyntu
Uppskriftin hefur verið uppfærð frá fyrstu birtingu Eins og ég lofaði í síðustu viku þá ætla ég að birta fyrstu jólauppskriftina í dag. Um...
powered by RelatedPosts