Minnisplattar

12Ég er ein af þeim sem skrifa flest allt niður á blað. Allar hugmyndir sem mér dettur í hug, allt sem ég á eftir að gera, allt sem ég þarf að gera það skrifa ég niður á miða. Að sjálfsögðu eru þeir þar af leiðandi út um allt og eru til dæmis þessi tvö viðarbox sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan stútfull af allskonar minnismiðum. Þetta GÞS (DIY) verkefni er því fullkomið fyrir þá sem eru jafn minnismiðaóðir og ég. Þessa minnisplatta bjó ég til fyrir nokkrum árum og mér datt í hug að deila þeim með ykkur hér á síðunni :)

1-5-of-5

Þetta föndur er ótrúlega fljótlegt og ódýrt og ætti hver sem er að geta apað það eftir. Ég verð nú samt að viðurkenna að ég tók heilmikið til á minnisplöttunum mínum áður en ég smellti af fyrir þessar myndir. Vanalega eru þeir ekki svona snyrtilegir hjá mér heldur fullir af allskonar minnismiðum en þar sem það er ekkert sérstaklega smart tók ég frá alla ljótu krassmiðana og skildi eftir þá flottustu.

1-4-of-51

Það eina sem þið þurfið í þetta verkefni eru einhverskonar hitaplattar úr korki. Ég keypti þessa hitaplatta í IKEA. Þeir eru ódýrir, þrír í pakka og það er mjög hæfileg stærð á þeim. Einnig þurfið þið hvíta málningu eða málningu í þeim lit sem þið kjósið. Ég notaði sömu málningu og er á veggnum mínum þannig að plattarnir falla voðalega vel við vegginn. Næst þurfið þið einhverskonar festingu til að festa plattana á vegginn. Til að festa mína platta notaði ég franskan rennilás. Ég festi einn helminginn af rennilásnum á vegginn og hinn á plattann. Þetta átti eiginlega að vera svona bráðabirgða lausn hjá mér þangað til ég færi út í búð og keypti almennilegar festingar en veistu þessir plattar eru núna búnar að hanga uppi á vegg hjá mér í meira en tvö ár og þeir hafa aldrei dottið af. Franski rennilásinn er því að standa fyrir sínu og ég hef ekkert þurft að skipta um festingar.

Til að setja punktinn yfir i-ið þá eru það teiknibólurnar. Þið getið náttúrulega keypt þessar venjulegu marglitu teiknibólur eeeeen það er miklu skemmtilegra að gera eitthvað öðruvísi ;)

1-1-of-5

Þessa demanta keypti ég í Garðheimum á sínum tíma í föndurhorninu þar. Þetta voru svona langir pinnar sem eru notaðir í kransagerð eða allskonar skreytingar. Ég keypti þá til að nota þá sem títuprjóna en svo þegar ég gerði þessa platta datt mér í hug að klippa þá til og stytta svo ég gæti notað þá sem teiknibólur. Það kom líka svona rosalega vel út. Þegar það er falleg birta úti þá grípa demantarnir ljósið og lýsast upp ótrúlega fallega. Ég skrapp í föndurhornið í Garðheimum í desember og þá voru þessir demantar ekki lengur til sem kom mér í rauninni ekki á óvart þar sem það er svo rosalega langt síðan ég keypti þá. Það voru þó til svona pinnar með perlu á endanum. Þeir voru líka mjög flottir og ég gæti alveg hugsað mér að blanda þessum tveimur tegundum saman, það gæti komið vel út. Ég veit ekki hvort perlurnar eru til ennþá þar sem það var 50% afsláttur í föndurhorninu þar sem Garðheimar eru því miður að hætta með það. Ef einhver veit hvort að sá afsláttur er ennþá í gangi eða hvort perlupinnarnir eru ennþá til þá má hann endilega láta mig vita eða skrifa það í athugsemd við þessa færslu :)

1-3-of-5

Skrefin til að búa til þessa minnisplatta eru því einfaldlega:

Kaupa hitaplatta úr korki

Mála þá og passa að gleyma ekki að mála hliðarnar á hitaplattanum

Festa plattana upp á vegg þegar þeir eru orðnir þurrir

Skreyta með fallegum teiknibólum

Einfaldara verður það ekki! Ef þið hendið ykkur í þetta verkefni þá megið þið endilega sendið mér mynd eða myllumerkja #belleis á Instagram. Það væri gaman að fá að sjá mismunandi útgáfur af minnisplöttunum :)

 

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Fataskápahack
Þeir sem eru að fylgja mér á Instagram (endilega fylgið mér undir @rannveigbelle ef þið eruð eki að því nú þegar) sáu fataskápahackið sem ég ...
Gróft prjónað teppi: Myndband
Þeir sem eru með mig á snapchat (rannveigbelle) sáu mig gera þetta grófa prjónaða teppi um daginn frá A til Ö. Ég fékk uppskriftina...
"DIY" Color Switch
Þetta litla DYI verkefni er nú varla hægt að kalla DIY verkefni þar sem þetta er meira hugmynd en eitthvað föndur. Hafið þið ekki heyrt um Co...
powered by RelatedPosts