DIY – Kókos baðbombur

142

Í þessari fyrstu alvöru færslu á síðunni langaði mig að sýna hvernig hægt er að búa til þessar baðbombur heima! Það er í rauninni ótrúlega einfalt og mjög líklega eigið þið allt sem til þarf inni í skáp hvort sem er. Baðbomburnar eru alveg án eiturefna sem þýðir að engin hættuleg aukaefni leynast í þeim svo að í rauninni mættuð þið borða þær þó svo að ég mæli alls ekki með því ;)

innihald-copy

Hér eru innihaldsefnin sem þið þurfið. Uppskriftin hér fyrir neðan býr til um það bil átta litlar baðbombur eða um tvær stórar:

210

Byrjið á því að blanda þurrefnunum, sítrónusýrunni og matarsódanum vel saman. Í uppskriftinni segi ég sítrónusýra í duftformi en sítrónusýran sem ég kaupi frá slikkerí.is er meira eins og sykur. Ég reddaði því með því að henda henni í matvinnsluvél í nokkrar sekúndur. Þá var hún nokkurn vegin komin í duftform og þið þurfið ekki að hafa áhyggjur af því þó að einhver korn leynist með.

 

45

Næst blanda ég saman vökvanum í aðra skál. Kókosolían á að vera í fljótandi formi og skellti ég henni bara inn í örbylgjuofninn í nokkrar sekúndur. Passið ykkur samt að hún sé ekki sjóðandi heit þegar þið blandið öllu saman en það er í lagi ef hún er volg. Þar sem mikil olía er í þessari blöndu skilur hún sig mikið en þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af því.

54

Nú er komið að erfiðasta hlutanum í þessu öllu og hér skiptir máli að vera svolítið snöggur. Nú blöndum við saman þurrefnunum og vökvanum. Þeir sem hafa prófað baðbombur vita að þær freyða þegar þær snerta vatn og það er einmitt það sem gerist þegar vökvanum er bætt við hér. Þá verður efnahvarf og þurrblandan fer að freyða. Þess vegna skiptir máli að hella alls ekki öllum vökvanum út í á sama tíma. Byrjið á því að láta nokkra dropa renna af gafflinum á víð og dreif ofan í þurrefnin og þið heyrið strax að blandan byrjar að freyða. Þá skiptir málið að vera snöggur og blanda öllu vel saman með hendinni. Endurtakið þetta og bætið vökvanum smátt og smátt út í og blandið með höndunum.

62

Ekki er víst að þið þurfið að nota allan vökvan en þið vitið að blandan er tilbúin þegar að hún er eins viðkomu og blautur sandur og þið getið tekið smá í lófann ykkar, kreist og losað takið og blandan mun halda lögun sinni.

72

Þá er komið að því að móta baðbomburnar. Mótin sem ég er að nota eru jólakúlumót og fékk ég þau í föndurhorninu í Garðheimum um jólin. Þau eru samt eflaust til í hvaða föndurbúð sem er. Einnig ef þið eruð eitthvað að stunda fiskveiði þá getið þið prufað að nota bara flotholt :)

81

Eg byrja á því að fylla einn helminginn og þjappa blöndunni vel ofan í hann. Ég kúfylli mótið til að ég sé með nóg af blöndu til að festa báða helmingana saman.

91

Ég geri það sama með hinn helminginn af mótinu.

101

Núna legg ég helmingana tvo saman og þrýsti vel og ákveðið. Ef ekki er þrýst nógu fast munu helmingarnir tveir ekki festast saman.

113

Til að losa baðbombuna úr mótinu dumpa ég létt á það með gafli eða fingrunum og þá ætti hún að losna auðveldlega frá og haldast saman þegar þið opnið mótið.

122

Og þar hafið þið það! Fullkomin baðbomba :)

132

Haldið áfram að búa til bombur úr blöndunni þar til þið eruð komin með um það bil átta stykki og látið þær svo þorna í um sólarhring áður en þið notið þær. Ég skipti minni uppskrift í tvennt og gerði helminginn grænan og hinn helminginn bláan. Það gæti líka komið skemmtilega út að gera helminginn af einni baðbombu í einhverjum lit og hinn helminginn af henni í einhverjum öðrum. Fyrst hafði ég áhyggjur af matarlitnum, hvort hann myndi ekki bara lita baðvatnið, en svo er ekki. Það er svo ótrúlega lítið magn af matarlit í bombunum að hann hefur engin áhrif á vatnið.

krukka

Hversu falleg gjöf er þetta!? Ég bjó til merkimiða sem hægt er að prenta út og setja á krukkur eða önnur ílát. Mér finnst þetta alveg fullkomin vinkonugjöf eða bara svona ,,af því bara“ gjöf :)

Bomburnar ilma af kókos og þegar maður kemur úr baði eftir að hafa notað þær er maður silkimjúkur því þú ert alveg búin að liggja og draga í þig olíuna. Svo freyða þær líka!

 

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Fataskápahack
Þeir sem eru að fylgja mér á Instagram (endilega fylgið mér undir @rannveigbelle ef þið eruð eki að því nú þegar) sáu fataskápahackið sem ég ...
Gróft prjónað teppi: Myndband
Þeir sem eru með mig á snapchat (rannveigbelle) sáu mig gera þetta grófa prjónaða teppi um daginn frá A til Ö. Ég fékk uppskriftina...
"DIY" Color Switch
Þetta litla DYI verkefni er nú varla hægt að kalla DIY verkefni þar sem þetta er meira hugmynd en eitthvað föndur. Hafið þið ekki heyrt um Co...
powered by RelatedPosts