Snjallfarði frá Shiseido!

Vöruna í færslunni fékk ég að gjöf

_MG_4874

Það er svo gaman að fylgjast með öllum þeim nýjungum sem rata í verslanir með vorinu og ég er að reyna að vera eins dugleg og ég get að birta sem flestar þeirra hér á síðunni og finnst það vera að ganga alveg ágætlega! Nú í vikunni kom í verslanir nýr farði frá Shiseido sem ég ákvað að titla sem snjallfarða. Ástæðan fyrir því er að farðinn býr yfir sérstakri tækni sem gerir honum kleift að aðlaga sig að húðgerð hvers og eins einstaklings. Ég fer aðeins betur yfir það allt saman hér rétt fyrir neðan en förum fyrst yfir umbúðirnar :)

_MG_4888

Um þessar mundir er Shiseido merkið að vinna í því að skipta um umbúðir á flestum ef ekki öllum vörunum sínum og þessi farði kemur því í þessum fallega rauða og svarta kassa sem minnir svo sannarlega á japanska uppruna merkisins.

_MG_4904

Farðinn sjálfur kallast Shiseido Synchro Skin Foundation og er í hrímuðu glerglasi með plastloki og pumpu sem sér um það að dæla farðanum á handarbakið. Ég veit ekki með ykkur en mér finnst svo miklu þægilegra þegar farðar eru með pumpu frekar en eitthvað annað. Ég lít svo sem framhjá því ef varan er með dropateljara í staðin fyrir pumpu en oft á tíðum veldur dropateljarinn því að farðaglasið verður kámugt og farðinn sjálfur safnast saman við opið en þetta er eitthvað sem maður sleppur algjörlega við þegar farðinn er með pumpu.

_MG_4894

Farðinn sjálfur er einstakur að því leitinu til að hann inniheldur svokallaða „sensing“ tækni sem gerir honum kleift að skynja ástand húðarinnar og laga sig að henni. Þetta þýðir að ef þú ert þurr á einum stað á andlitinu þá nemur farðinn það og ef þú ert olíumikil á öðrum þá nemur farðinn það einnig og lagar sig að því. Hjá mér myndast til dæmis oft olía á enninu þegar líða tekur á daginn en þurrkur á milli augabrúnanna svo farðinn ætti tæknilega séð að geta numið það og aðlagað sig að þessum breytingum í húðinni. Með þessari tækni á farðinn að gefa húðinni náttúrlegt og heilbrigt yfirbragð ásamt því að jafna húðlitinn og þekja misfellur í yfirborði hennar. Formúlan í farðanum inniheldur síðan SPF 20 sólarvörn svo farðinn hjálpar til við að vernda húðina frá sólinni við hversdagsnotkun.

Hér sjáið þið svo farðann á handarbakinu mínu bæði beint úr glasinu og blandaðan við húðina. Farðinn er alls ekki þykkur þegar hann kemur úr glasinu og er heldur frekar þunnur svo það þarf að hrista glasið ágætlega fyrir notkun til að blanda honum vel saman. Hann er samt engan veginn jafn þunnur og til dæmis Dior Air Nude farðinn sem ég sýndi ykkur hér um daginn eða Dream Wonder Fluid Touch farðinn frá Maybelline. Liturinn á farðanum sem þið sjáið hér er Neutral 2 og hann er sirka einum litartóni of dökkur fyrir minn húðlit en ljósasti liturinn sem hægt er að fá er liturinn Neutral 1.

_MG_5331

Á fyrstu myndinni hér er ég alveg ómáluð, á mynd númer tvö er ég bara með farðann á mér og á mynd númer þrjú er ég fullmáluð. Ég setti eina umferð af farðanum þegar ég tók þessa mynd en vanalega set ég tvær til að fá fulla þekju. Ef að ein umferð er sett á andlitið þá er þekjan frekar létt en ég kýs að hafa hana aðeins þéttari fyrir persónulega notkun. Ég horfði á myndband um daginn á bresku Shiseido FB síðunni sem kenndi hvernig nota ætti farðann en þar var mælt með að nudda honum inn í húðina með fingrunum til að virkja betur „sensing“ tæknina. Ég var hinsvegar ekki alveg á því þar sem ég hafði áhyggjur af að fá ójafna þekju með þeirri aðferð svo ég prófaði að nota bæði bursta í eitt skipti og rakan förðunarsvamp í hin. Ég varð hrifnari af áferðinni sem svampurinn gaf farðanum en það er að sjálfsögðu persónubundið. Þekjan sem farðinn gaf var hinsvegar þéttari þegar að ég notaði förðunarbursta. Ef þið kaupið farðann þá skuluð þið endilega prófa ykkur áfram og sjá hvora aðferðina þið fílið betur.

Shiseido_Synchro_Skin_Foundation

Farðin endist rosalega vel á húðinni og hann sest ekki í neinar línur! Ég er frekar brosmild manneskja svo ég er með eina broslínu á andlitinu sem ég á oft í vandræðum með þegar kemur að farðanotkun. Alltaf þegar ég brosi þá eiga þeir það til að raskast á því svæði sem gerir línuna enn meira áberandi en hún er þegar ég er ekki með neinn farða á andlitinu. Þessi farði gerði ekkert slíkt hjá mér og hélst á sínum stað allan daginn. Þetta er til að mynda fyrsti farðinn sem ég nota sem gerir broslínuna mína ekki áberandi þegar líða tekur á daginn þar sem flestir, ef ekki allir aðrir farðar sem ég hef prófað eiga það til að raskast smá í kringum hana. Það er því stór plús í mínum kladda! Ég tók samt eftir því að eftir 8 tíma vinnudag þar sem ég var búin að leggja hendina upp að vinstri kjálkanum mest allan daginn var farðinn aðeins farinn að raskast á þeim stað og búinn að oxast smá. Það kennir mér að hætta að vera með puttana í andlitinu allan daginn! :)

Í sannleika sagt þá virkar „sensing“ tæknin ótrúlega vel! Ég veit að oft eru farðar með einhverja svaka lýsingu á einhverri svaka tækni sem maður trúir kannski ekki alveg hundrað prósent og því er alltaf jafn gaman þegar maður finnur fyrir tækninni sem farðinn státar sig af virka eins og henni er lýst. Farðinn þurrkar ekki húðina þína á þeim stöðum sem hún er þurr og kemur í veg fyrir olíumyndum á þeim stöðum sem hún er gjörn að myndast. Þekjan á farðanum er svo uppbyggjanleg svo þú getur borið létt lag af honum til að fá smá þekkju eða byggt hann upp til að fá meiri þekju. Áferðin á farðanum er síðan rosalega náttúruleg en hún er hvorki mött né ljómuð heldur mitt þar á milli. Ég get best lýst áferðinni með því að skrifa að hún sé eins og húðin þín nema betri :) 

_MG_4904

Ég hvet ykkur því klárlega að kíkja á þenna farða næst þegar þið hafið tök á því hann er einstaklega góður og það er ekki oft sem maður finnur farða sem gerir nákvæmlega það sem hann segist gera!

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vöruna í færslunni fékk ég að gjöf

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Fyrir og eftir með nýja farðanum frá YSL
Það er nú heldur betur langt síðan ég gerði fyrir og eftir færslu með farða! Það er því kominn tími til að bæta úr því og tilvalið að sýna ykku...
Búðu þig undir þessa!
Jæja ég var búin að sýna ykkur frá NYX Professional Makeup eventinum sem ég fór á um daginn HÉR svo það er um að gera að sýna ykkur betur ...
Á augnhárunum mínum
Ég er með sérstakar kröfur þegar kemur að maskörum og þess vegna tek ég mér alltaf ágætis tíma til að prófa nýja maskara þegar þeir...
powered by RelatedPosts