Real Techniques Bold Metals hátíðarsettið

Vörurnar eru í einkaeigu

IMG_3385

Ef þetta eru ekki flottustu burstar sem ég hef séð þá veit ég ekki hvað! Ég var svo heppin að fá þessa í afmælisgjöf frá betri helmingnum núna í nóvember og er búin að vera prófa þá frá fyrsta degi til að geta sagt ykkur almennilega frá þeim. Núna fyrir jólin komu tvö „Special edition“ sett frá Real Techniques og er þetta annað af þeim. Hitt settið inniheldur venjulegu burstana, þessa með appelsínugula, bleika og fjólubláa skaftinu.

Þetta voru fyrstu Bold Metals burstarnir sem ég hef prófað en ég hafði aðeins komið við nokkra á einhverri miðnæturopnun fyrir nokkrum vikum þegar kynning var á burstunum. Það fyrsta sem maður tekur eftir þegar maður skoðar þá (fyrir utan fegurðina) er hversu mjúkir þeir eru. Þetta eru án efa mýkstu burstarnir sem ég á og ég á orðin dágóðan slatta af burstum. Mamma (og reyndar öll familían) gerir oft grín af mér því hún skilur ekki hvað maður hefur að gera við svona marga bursta. Ég útskýri þetta alltaf með því að segja að listamaður málar ekki bara með einum pensli… mér finnst alltaf sú myndlíking ná þessu nokkuð vel :)

Bold Metals línan er svona gæða lína frá Real Techniques og maður tekur strax eftir því. Þá er ég ekki að tala um gæðin heldur verðið þar sem að burstarnir eru töluvert dýrari heldur en venjulega línan frá þeim. Um leið og maður opnar kassann og byrjar að káfa á burstanum þá skilur maður samt vel verðmuninn því það er töluvert meira lagt í þessa bursta en hina. Sköftin eru þyngd til að burstinn haldi fullkomnu jafnvægi í hendinni og hárin eru þau mýkstu sem hafa fundist í RT burstum til þessa. Hárin eru að sjálfsögðu gervihár og eru þau hvít svo hægt sé að sjá nákvæmlega hversu mikla vöru maður er komin með í burstann. Að mínu mati er það helsti kosturinn svo maður fari ekki að sóa óþarfa magni af vöru eins og vill stundum gerast þegar maður tekur of mikið á svartann bursta. Eigum við svo eitthvað að ræða það hvað þeir eru fallegir! Ég tími ekki einu sinni að geyma þá í burstaskúffunni minni því þeir eru bara eins og stofustáss liggjandi ofan á snyrtiborðinu.

Í settinu er þrír burstar og mig langaði að segja ykkur aðeins frá hverjum og einum bursta og hvernig ég nota þá. Smellið svo endileg á myndirnar til að sjá þær stærri og burstana betur.

103 Angled Powder – Byrjum á þeim stærsta. Þessi bursti fæst einungis sem hluti af þessu setti en ekki sem stakur og er þetta langstærsti Bold Metals burstahausinn sem er í boði. Þessi er skáskorinn svo hann hentar fullkomlega til að bera púður á allt andlitið. Hann er ótrúlega mjúkur og þegar ég segi ótrúlega þá meina ég sko ótrúlega as in ég ætlaði ekki að trúa því þegar ég kom við hann! Fyrst byrjaði ég að nota hann sem kinnalitabursta enda skáskorinn og því hélt ég að hann yrði ágætur til þess. Ég hafði ekki rétt fyrir mér þar sem að sjálfsögðu er burstahausinn alltof stór fyrir kinnarnar mína en ég hélt að ég myndi hafa aðeins meiri stjórn á burstanum og geta stýrt því betur hvert liturinn færi. Ég lærði af þeim mistökum og núna nota ég hann einungis til að bera létt lag af púðri á allt andlitið og er hann núna orðinn uppáhaldspúðurburstinn minn. Það þarf ekki meria en þrjár strokur til að ná að bera púður yfir allt andlitið.

200 Oval Shadow – Þetta er sá bursti sem ég er síst hrifin af í settinu. Ekki samt taka því þannig að hann sé ekki góður því hann er það. Málið er bara að ég er persónulega ekkert sérstaklega hrifin af augnskuggaburstunum frá RT því mér finnst þeir ekki skila nógu mikilli vöru á augnlokið heldur stela henni og halda henni bara í burstanum. Þess vegna nota ég bara oftast þá bursta til að blanda harðar línur og skörp skil í augnskugganum sem ég vil losna við en ekki til að bera á mig skuggann og þeir eru fullkomnir til þess. Ég nota þennan hérna einmitt til þess og er hann rosalega góður í því verki. Ef þið eruð með lítil augnlok þá er hann kannski helst til stór en það er alveg hægt að láta hann virka. Hann getur líka gengið til að bera hyljara undir augun en ég hef ekki prófað það enn þá sjálf svo ekki taka mig alveg á orðinu.

300 Tapered Blush – Þetta er sá bursti af öllum Bold Metals burstunum sem ég var spenntust fyrir að prófa! Reyndar var það bæði þessi og síðan Flat Contour burstinn sem ég á líka en hann er æðislegur ef ykkur vantar góðan skyggingarbursta. Ég hafði heyrt bæði á öðrum bloggsíðum og þegar ég talaði við stelpuna sem leyfði mér að koma við burstana á þessari miðnæturopnun að þessi bursti væri fullkominn í highlighter eða ljómapúður eins og það heitir á góðri íslensku (allavega minni íslensku). Ég verð að vera ógeðslega leiðinleg og segja að ég er alls ekki sammála því þar sem mér finnst burstinn éta allt ljómapúðrið mitt og skila bara smá af því á kinnarnar. Ég er ekki manneskja sem vil hafa lítinn ljóma á húðinni, nei takk! Ég vil að ljóminn sjáist út í geim og því þarf ég bursta sem skilar því magni á kinnbeinin. Þessi er að mínu mati miklu betri í því sem hann á að gera sem er að bera á kinnalit eins og nafnið gefur til kynna. Að bera kremkinnalit á með þessum er fullkomið og svo hentar hann líka vel til að taka upp púður til að setja hyljarann undir augun. Sem sagt góður púðurbursti en ekki fyrir ljómapúður. Hljómar kannski svolítið snúið þar sem púður og ljómapúður eru að sjálfsögðu bæði púður en þetta er bara mín reynsla og það er allt í lagi að vera ósammála henni :)

bold1

Til að draga þetta saman þá er ég virkilega sátt með þetta flotta sett eftir að hafa prófað burstana vel og fundið út hvernig ég vil helst nota þá. Við ykkur sem vantar jólagjöf fyrir þann sem á allt þá myndi ég segja að þetta væri fullkomin gjöf fyrir burstasafnarann í fjölskyldunni, það er nefnilega svolítð svoleiðis að safnarar eiga aldrei nóg af því sem þeir safna :)

P.S. Á morgun rennur skilafresturinn út fyrir þá sem vilja sækja um að gerast höfundar á nýju Belle.is is síðunni sem mun opna á næsta ári. Nú fer hver að verða síðastur til að henda inn flottri umsókn!

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vörurnar eru í einkaeigu

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Hátíðarlúkk #4 (Too Faced)
Jæja þá er ég mætt aftur eftir stutt jólafrí og langar að halda áfram með hátíðarsýnikennslurnar mínar. Ég vona að þið hafið haft það sem allra...
5 hlutir sem ég ætla að gera í desember
Fara á jólahlaðborð Ég hef ekki farið á jólahlaðborð í mörg mörg ár og ég get ekki beðið eftir að skella mér á eitt slíkt núna í desember. Ég ...
Fullkomnar varir með RT!
Þá er komið að seinna Real Techniques settinu sem ég ætlaði að segja ykkur frá en í þessari færslu ætlum við að skoða vel Prep & Col...
powered by RelatedPosts