Paraben: Hvað er það?

paraben_hvad_er_tad1Ég var í menntaskóla þegar það kom í ljós að ég er með mikið ofnæmi fyrir parabenefnum. Ég hafði aldrei nokkurn tímann á ævinni heyrt talað um paraben og ég vissi í rauninni ekkert hvað það þýddi að vera með ofnæmi fyrir þeim. Ég kinkaði bara kolli þegar að læknirinn sagði mér þetta og þóttist alveg skilja hvað hann var að tala um. Það var ekki fyrr en ég kom heim frá lækninum og fór að googla að ég fattaði að paraben voru á þeim tíma eitt algengasta efnið í snyrtivörum. Eins og við mátti búast þá var snyrtivörufíkillinn ég sem elskaði ekkert meira en að geta keypt mér ódýrar snyrtivörur frekar fúl yfir þessu.

Notkun parabens hefur minnkað verulega í snyrtivörum á undanförnum árum og er það allavegana mikið gleðiefni fyrir mig. Markaðsetning snyrtivara nú til dags hefur breyst mikið og er nú nánast alltaf tekið fram ef að vara er parbenlaus. Þetta tíðkaðist ekki hér áður fyrr og er þetta í rauninni nú til dags orðinn ákveðinn gæðastimpill fyrir vöru þó svo að margir viti ekki almennilega hvað hann þýðir. Það er nefnilega svolítið einkennandi að fólk veit ekki alveg hvað paraben er en vita samt að það er táknar gæði ef að vara er laus við það. Vegna þess langaði mig að skrifa smá samantekt á því hvað parabenefni eru, hvers vegna þau eru talin skaðleg og deiluna sem ríkir tengda því.

östrojen-ve-parabenler-2

Parabenefni eru í stuttu máli sagt flokkur rotvarnarefna sem voru og eru mikið notuð í allskonar snyrtivörum eins og förðunarvörum, sjampóum, raksápum, sjálfbrúnkuvörum og jafnvel tannkremum. Ég ætla ekki að fara að þreyta ykkur með því að fara í efnauppbyggingu efnana (sem þið getið þó séð á myndinni hér fyrir ofan) heldur frekar fara yfir tilgang og möguleg skaðleg áhrif þeirra. Paraben eru ekki náttúruleg efni heldur eru þau sérstaklega framleidd gerviefni. Efnin eru aðallega notuð til að berjast gegn bakteríuvexti og sveppavexti í formúlum og eru þau því ódýr lausn fyrir fyrirtæki til að auka líftíma vara þeirra. Þess vegna er algengt að finna parabenefni í snyrtivörum sem eru í ódýrari kantinum þó svo það þurfi ekki endilega alltaf að vera. Það má til dæmis ennþá finna parabenefni í rándýrum hágæða snyrtivörum.

Parabenofnæmi er ekki algengt miðað við hversu mikið efnin eru notuð en það virðist þó (samkvæmt rannsóknum sem ég hef lesið mig til um) vera að færast í aukana. Ástæðan á bakvið það er talin vera sú að því meira sem einstaklingur notar vörur sem inniheldur parben því næmari verður hann fyrir þeim. Ofnæmið getur komið fram sem útbrot sem myndast eftir að húðin kemst í snertingu við efnið og er það einmitt það sem gerist hjá mér. Fyrst hélt ég að þetta væri einhverskonar kuldaexem og datt ekki í hug að ég væri með ofnæmi. Ég hélt bara áfram að bera á mig handáburðinn sem innihélt dágóðan slatta af parabenum beint ofan á útbrotin mín og þið getið rétt ímyndað ykkur að það hjálpaði þeim svo sannarlega ekki að gróa. Ég er líka með tvö myndarleg eyeliner ör á sitthvoru augnlokinu eftir að ég notaði aftur og aftur sama blauta eyelinerinn sem innhélt paraben og fattaði ekki afhverju í ósköpunum ég var að fá þessi ljótu útbrot í kringum augun. Svona getur maður verið fattlaus.

lipsticks

Það eru mörg efni sem eru notuð í snyrtivörum í dag sem maður veit ekki almennilega hvað gera og því getur maður auðveldlega velt því fyrir sér hvað í ósköpunum gerir paraben svona sérstök og afhverju fyrirtæki taka það frekar fram ef vörur þeirra eru lausar við þau frekar en einhver önnur efni. Mig langaði að setja þetta upp smá myndrænt fyrir ykkur áður en ég fer út í frekari smáatriði deilunnar. Húðin er eins og kannski flestir vita stærsta líffæri líkamans og því skiptir einstaklega miklu máli hvernig við hugsum um hana. Segjum sem svo að þú hafir verið að stíga út úr heitri sturtu. Allar svitaholurnar á líkamanum þínum eru galopnar eftir hitann og húðin því sérstaklega viðkvæm. Þú tekur kremið þitt og byrjar að bera það á húðina. Þar sem svitaholurnar eru opnar smýgur kremið hratt og djúpt inn í húðina.

estrógen

Þetta er einmitt það sem að veldur áhyggjum þegar kemur að parabenum. Aðal deilan tengd þeim er hversu lík þau eru hormóninu Estrógen í efnauppbyggingu. Það er því talið að þegar paraben sem ýmis krem og aðrar snyrtivörur innihalda eru borin á húðina munu þau flytjast þar í gegn og inn í blóðrás líkamans. Þannig er talið að paraben geti raskað eðlilegri hormónastarfsemi hans. Vert er þó að taka fram að paraben hafa töluvert veikari virkni en Estrógen en þau eru um 10.000 – 100.000 sinnum veikari. Þrátt fyrir það er því haldið fram að þegar að parabenin smjúga inn í húðina geta þau tengst viðtökum í líkamanum sem Estrógen á að tengjast. Með þessu geta þau komið í veg fyrir að Estrógen geti tengst þeim. Þetta er ekki ólíkt því og þegar þú ert að reyna að komast að bréfalúgu til að skila af þér bréfi en einhver annar er nú þegar að stinga sínu bréfi þar inn svo þú kemst ekki að.

Miklar vangaveltur eru um hvort að þetta atriði, og þá sérstaklega parabentegundin Butylparaben, geti valdið brjóstakrabbameini og því eru margir sem kjósa einfaldlega að forðast parben. Nokkrar rannsókir hafa verið gerðar til að rannsaka tengsl parabena við brjóstakrabbamein en engin af þeim hefur verið nógu stór eða viðamikil til að hægt sé að fullyrða það með vissu. Almennt álit rannsakenda virðist vera að ólíklegt sé að paraben tengist myndun krabbameins þar sem að oft sé um að ræða svo lítið magn af efninu í þeim vörum sem fólk er að nota að það eigi ekki að hafa nein skaðleg áhrif. Fólk er því frekar klofið um hvort paraben séu yfir höfuð skaðleg eða ekki en frekari rannsóknir ættu að geta lagt málið til hvílu.

Þess má geta að nýlega bannaði Evrópusambandið 5 parabentegundir í snyrtivörum en þau voru: Isopropylparaben, Isobutylparaben, Phenylparaben, Benzylparaben og Pentylparaben. Einnig minnkuðu þau leyfilegt magn af Butylparabeni og Propylparabeni úr 0,4% í 0,14% sem er töluverð minnkun. Reglurnar tengdar parabenum eru því sífellt að verða strangari og hlýtur einhver ástæða að búa þar að baki sama hver hún kann að vera.

Ég vona að þið vitið núna aðeins meira um paraben og hvers vegna allt er merkt þegar það er parabenlaust. Ég var hvorki að skrifa þennan texta til að hræða ykkur né segja ykkur að forðast þau eins og enginn sé morgundagurinn, frekar bara til að fræða :)

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Trylltur Becca Gjafaleikur
Ef þú ert að fylgja mér á Instagram þá hefur þú vonandi tekið eftir því að ég setti af stað hörku gjafaleik í gang í gær þar sem ég er að gef...
Netapoki
Það er ótrúlegt hvað tískan gengur í hringi - þó að ég haldi nú að þetta sé orðin meiri tíska núna þar sem þetta var bara nytjahlutur í gamla d...
Met favorites!
Ég hata (og þá meina ég hata) að byrja færslu á því að afsaka mig en í þessu tilfelli finnst mér ég þurfa þess. Það er mikið búið að vera í gangi...
powered by RelatedPosts