Ljómakrem undir augun

Vöruna í færslunni fékk ég að gjöf

_MG_8830

Góðan dag! Ég vona nú að þið hafið átt aðeins skemmtilegri helgi en ég því mín fór í einhverja leiðinda flensu sem ég er svona rétt að jafna mig á í dag… einstaklega skemmtilegt! Ég horfði nú samt á leikinn í gær og get eiginlega ekki verið fúl yfir úrslitunum því strákarnir eru búnir að standa sig svo brjálæðislega vel að ég er bara stolt af árangrinum frekar en eitthvað annað :) En þá að færslu dagsins. Mig langaði að sýna ykkur betur þetta einstaka augnkrem sem ég er búin að vera að prófa mikið síðustu vikur og segja ykkur aðeins frá því og afhverju ég er búin að vera að nota það á hverjum einasta degi frá því ég fékk það.

_MG_8845

Kremið kallast Illuminating Eye Cream og kemur frá náttúrumerkinu Lavera. Ég hef eitthvað fjallað um vörur frá merkinu áður en ég nota til að mynda augabrúnagelið frá þeim á hverjum einasta degi og einn allra uppáhalds kinnaliturinn minn kemur frá merkinu. Fyrir þá sem ekki kannast við Lavera þá er það í stuttu máli sagt yfir 25 ára gamalt þýskt snyrtivörumerki sem framleiðir snyrtivörur úr náttúrulegum efnum. Augnkremið frá þeim sem þið sjáið hér á myndunum er ólíkt öðrum aungkremum sem ég hef prófað að því leitinu til að það innheldur full af ljómandi perluögnum sem birta yfir augnsvæðinu um leið og það er sett á húðina. Fyrst þegar ég sá kremið vakti það heldur betur athygli mína útaf einmitt þessu en ég var samt smá hrædd um að allur þessi ljómi myndi líta pínu furðulega út undir augunum en hann gerir það svo sannarlega ekki.

_MG_8853

Hér sjáið þið hvernig augnkremið lítur út þegar það kemur úr túpunni en það þarf alls ekki svona mikið af því undir augun, smá doppa dugar. Augnkremið inniheldur ásamt perluögnunum, lífrænt koffín sem á að strekkja áðeins á húðinni og gera hana stinnari. Áður en ég las mér til um kremið sjálft og innihaldsefni þess fann ég einmitt fyrir þessari „strekkings tilfinningu“ ef svo má kalla, svo mér fannst mjög áhugavert að lesa mér betur til um kremið og sjá hvað af innihaldsefnunum var að valda þessu. Kremið inniheldur einnig Hyaluronic Acid sem á að veita húðinni raka og minnka fínar línur. Ég myndi ekki segja að kremið gefi neinn sérstakan raka enda er ég ekki að nota það sem slíkt rakakrem og ég get einnig ekki sagt til um hvort það minki fínar línur eða hrukkur þar sem ég er heppilega ekki komin með slíkar rákir enn. Ég get þó fullvissað ykkur um það að kremið minnkar svo sannarlega baugu… allavega mín baugu :)

_MG_8862

Hér sjáið þið svo ljóman á kreminu þegar ég er búin að dreifa úr því á handarbakinu mínu. Þegar ég nota kremið þá er ég aðallega að nota það til fríska aðeins upp á augnsvæðið mitt og til að fela dökk baugu. Eftir að ég byrjaði að nota kremið hef ég komist upp með það að nota ekki hyljara í minni hversdagsförðun og þá er sko mikið sagt því oftast nota ég einungis hyljara og augabrúnagel áður en ég held út í daginn. Það er eitthvað við það hvernig ljóminn í kreminu endurvarpar birtu sem felur baugana svo rosalega vel og lætur mann líta töluvert frískari út en maður er í raun og veru. Það er frekar erfitt að útskýra þetta og sjálf hefði ég aldrei trúað því að augnkrem gæti komið í staðin fyrir hyljarann minn á þeim dögum þegar ég vil helst ekki vera máluð. Ég er líka aðeins farin að róa mig í hyljaranotkuninni upp á síðkastið og farin að sættast við baugana mína og þetta krem er alveg að hjálpa mér við það. 

Screen Shot 2016-07-04 at 12.54.11

Eins og þið kannski skynjið á textanum hér fyrir ofan er ég rosalega hrifin af þessu kremi. Ljómin endist allan daginn og það frískar upp á húðina undir augunum þegar hún er þrútin og leiðinleg. Það eina sem ég get sett út á kremið er lyktin af því sem mér finnst ekkert sérstaklega góð. Það er alls ekki mikil lykt af því og þetta er ekki þáttur sem fær mig til að vilja ekki kaupa kremið aftur. Kremið inniheldur nefnilega einungis náttúruleg lyktarefni en fyrir þá sem ekki vita þá geta gervi lyktarefni þurrkað upp húðina svo það er ekki gott að hafa mikið af svoleiðis lyktarefnum í húðvörum og þá sérstaklega ekki ef þið eruð með viðkvæma húð.

_MG_8875

Virkilega falleg og skemmtileg vara frá einu af mínu uppáhalds merkjum. Ef ykkur vantar nýtt og sniðugt augnkrem til að fríska upp á augnsvæðið þá mæli ég klárlega með þessu!

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vöruna í færslunni fékk ég að gjöf

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Mitt ljómakombó og burstinn sem ég nota
Mig langaði að sýna ykkur ljómakombóið sem ég er búin að vera að nota í allan desember og hefur hjálpað mér að ná alveg svakalega fallegum en e...
BECCA - Pressed, Poured eða Liquid?
Gleðilegan fimmtudag elsku lesendur! Ég ætla aðeins að leyfa mér smá pásu frá lærdómnum í dag en ég er alveg búin að vera að drukkna undanfar...
KKW Beauty Contour Dupe!!
Þær sitja ekki auðum höndum Kardashian systurnar en nýlega stofnaði Kim Kardashian sitt eigið snyrtivörumerki líkt og systir hennar Kylie og ...
powered by RelatedPosts