L.A. Lights frá Smashbox

Vöruna í færslunni fékk ég að gjöf

_MG_9496

Það er svolítið langt síðan ég gerði almennilega snyrtivöruumsögn hér á síðunni svo mig langaði að skella í eina svoleiðis í dag! Fyrir valinu var þessi gullfallega kinnalitapalletta frá Smashbox sem ég er búin að vera að prófa síðan í júlí.

_MG_9491

Pallettan er úr L.A. Lights línunni og er í litnum Pacific Coast Pink. Línan sjálf er innblásin af ljósunum í Los Angeles og á að endurskapa svipaða áferð á húðinni og birtan í borginni gefur. Pallettan sjálf er mjög handhæg en hún passar vel í lófa svo það er ekki ósniðugt að nota hana í ferðalög þar sem hún tekur lítið pláss og inniheldur þrjá mismunandi liti.

_MG_9521

Hér sjáið þið inn í pallettuna en hún stendur svo sannarlega undir sínu nafni þar sem allir kinnalitirnir í henni eru mjög bleiktóna. Pallettan fæst einnig í tveimur öðrum litum en þeir eru Culver City Coral sem inniheldur kóraltóna og Malibu Berry sem inniheldur gullfallega berjatóna. Allar palletturnar eiga það sameiginlegt að samanstanda af einum djúpum litatón, einum sönnum eða „true“ tón og einum ljómandi tón.

Hér sjáið þið betur hvern lit fyrir sig. Fyrsti liturinn í pallettunni er liturinn Rich Pink en hann er djúpur bleikur og er því djúpi tónninn í pallettunni. Liturinn í miðjunni er svo True Pink og er því sanni tónninn í pallettunni. Rúsínan í pylsuendanum er svo Highlight Pink sem er ljómandi tónninn. Þann lit er ég búin að nota hvað mest bæði til að setja ofan á aðra kinnaliti eða bara einan og sér. Oft nota ég hann einnig til að setja á milli kinnalitsins á kinnunum og ljómapúðursins á kinnbeinunum til að það myndist engin skil þar á milli og allt blandist rosalega fallega saman. Hann er klárlega sá flottasti í pallettunni að mínu mati :)

_MG_9554

Hér sjáið þið svo litaprufur af hverjum og einum lit. Litirnir eru ekki of litsterkir en heldur ekki of daufir svo þeir eru eiginlega hinn fullkomni millivegur þegar kemur að litastyrk. Ég skal viðurkenna að ég hefði viljað að það væri örlítið meiri litamunur á fyrstu tveimur litunum en þeir koma frekar svipaðir út á kinnunum mínum. Kannski er það bara húðin mín svo þið skuluð endilega prófa þá úti í búð til að sjá hvort þeir séu ekki mismunandi á ykkur. Ljóma kinnaliturinn er svo algjörlega fullkominn! Hann hefur þennan fullkomna ljóma sem gefur húðinni rosalega fallegan og náttúrulegan bjarma. Eftir að hafa prófað þessa liti og formúlu svona lengi þá finnst mér þeir eiginlega vera hinir fullkomnu kinnalitir fyrir brúðarfarðanir og ætla ég að rökstyðja þá staðhæfingu með endingunni! Þessir litir endast svo svakalega lengi á húðinni minni að ég er viss um að þeir myndu endast allan brúðkaupsdaginn hjá þeim sem eru að fara að gifta sig.

Smashbox_LALights_Pink

Hér sjáið þið svo styrkleikaskala vörunnar og er nokkuð augljóst á honum hversu sátt ég er með pallettuna :)

_MG_9502

Með pallettunni fylgir svo lítill og sætur bæklingur sem sýnir manni alveg skref fyrir skref hvernig hægt er að nota alla litina. Vanalega hendi ég öllum svona bæklingum sem fylgja með vörum en mér fannst þessi svo flottur og nothæfur að ég kom honum fyrir í snyrtiborðinu mínu frekar en í ruslinu! 

Virkilega falleg og ferðavæn palletta fyrir þær sem vilja kinnaliti sem endast allan daginn og gefa kinnunum náttúrulegan ljóma og lit.

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vöruna í færslunni fékk ég að gjöf

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Búðu þig undir þessa!
Jæja ég var búin að sýna ykkur frá NYX Professional Makeup eventinum sem ég fór á um daginn HÉR svo það er um að gera að sýna ykkur betur ...
MYNDBAND: Einfalt gyllt smokey
Það tókst! Ég náði að klippa sýnikennslumyndbandið sem ég talaði um í færslunni minni gær fyrir daginn í dag! Mig langaði að gera bara stu...
Fyrir alla sem elska METAL
Ég og pósturinn í Danmörku erum ekki vinir, við getum orðað það svoleiðis. Þessi palletta kom til landsins í lok nóvember en ég fékk hana ekk...
powered by RelatedPosts