In-Shower Body Lotion frá Nivea

Varan er í einkaeigu

IMG_9467-3

Þessi færsla er tileinkuð öllum þeim sem eru jafn löt/latir og ég að bera á sig body lotion eða body butter, eða hvað þetta allt saman heitir, eftir sturtu! Mér persónulega finnst það alveg óttalega leiðinlegt og tímafrekt og vesen út í eitt. Maður verður klístraður í einhvern tíma því að kremið þarf smá stund til að smjúga inn í líkamann og stundum set ég of mikið á mig þannig það klístrast í fötin mín og ladída – ekki skemmtilegt. Undantekningin er samt ef ég er í algjöru dekurstuði, þá finnst mér alveg róandi að bera á líkamann krem en það gerist mjög, mjöööög sjaldan.

Ég skellti mér á miðnæturopnunina í Smáralindinni um daginn – fór reyndar klukkan 4 því ég nenni ekki kraðakinu en það er önnur saga! Á opnuninni var 20% afsláttur af snyrtivörunum í Hagkaup svo ég fór og ætlaði að kaupa tannkrem og svona til að nýta afsláttinn og kom að sjálfsögðu með miklu meira út en ég hafði ætlað mér. Snyrtivörur á afslætti er mikil veikleiki hjá mér… því miður! Þessi flaska sem þið sjáið hér fékk því að fylgja með mér heim en ég braut reyndar ekkert sparibaukinn minn með að grípa hana með því hún kostaði í kringum 700 kall (án afsláttar – að mig minnir).

Þetta dömur mínar og herrar er ein mesta snilld sem ég hef prófað í langan tíma! In Shower Body Lotion – eða body lotion sem á að nota inni í sturtunni! Ef það er ekki nóg til að vekja áhuga hjá okkur letingjunum þá veit ég ekki hvað! Kremið notar þú þegar þú ert ennþá inni í sturtunni, eftir að þú hefur notað sturtusápuna þína og berð það á þig alveg eins og þú ert að bera á þig venjulegt body lotion. Þegar þú ert búin að bera það á þig þá skolaru það af í sturtunni. Eftir það getur þú haldið áfram að sturta þig og þurrkað líkamann alveg eins og venjulega eftir að þú hefur stigið út úr sturtunni. Ótrúlega fljótlegt og þægilegt og það sem best er – EKKERT klístur!

Ég hafði ekki mikla trú á þessu áður en ég keypti þetta en ég hafði þó séð smá umtal um þessa vöru á erlendum síðum. Huffington Post, Allure og Shape Magazine hafa öll mælt með þessu svo mig grunaði að þetta væri ekki alveg vonlaust dæmi. Tilfinningin er samt sú að þegar maður stígur út úr sturtunni og byrjar að þurrka sig eftir að hafa skolað allt kremið af sér að það sé ekkert krem eftir á húðinni. Sú er ekki raunin því húðin er mjúk og ilmar af cocoa butter all kvöldið svo kremið virkar… það virkar vel – sem mér finnst í rauninni alveg lygilegt!

Nú eru kannski sumir að hugsa hver er eiginlega munurinn á því að bera á sig krem inni í sturtunni og utan við sturtuna – ertu ekki hvort sem er að eyða tímanum í að bera á þig krem? Ég skil alveg þessa pælingu en í sannleika sagt þá ertu miklu fljótari að bera á þig kremið í sturtunni. Kremið rennur einhvernveginn betur á húðina og svo að sjálfsögðu sleppirðu við það tímabil að bíða eftir því að kremið smjúgi inn í húðina. Kremið er líka fínt að geyma inn í sturtunni fyrir þá daga sem þú hefur ekki tíma til að bera á þig body lotion fyrir utan sturtuna – þá þarftu ekki að fórna tímanum þínum því þetta tekur enga stund.

Eina sem ég get sett út á þetta er að þú notar örlítið meira af vörunni innan sturtunnar heldur en þú myndir nota af kremi utan sturtunnar. Fyrir mig er þetta samt enginn galli því ég myndi hvort sem er ekki bera á mig krem utan sturtunnar svo fyrir okkur letingjana þá er þetta bara aukaatriði :)

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Varan er í einkaeigu

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.