ColourPop: Kathleen Lights

Vörurnar eru í einkaeigu

kathleen-4Ómæjeminneini! Ég veit þið trúið ekki hvað ég var spennt þegar ég fór á pósthúsið og náði í sendinguna sem beið mín þar. Mig er búið að dreyma um að prufa ColourPop vörurnar alveg frá því ég sá þær fyrst á youtube og þökk sé einni góðri vinkonu sem er búsett í Bandaríkjunum gat ég loksins pantað mér! Því miður sendir fyrirtækið ekki til Íslands en það er víst í vinnslu að bjóða upp á sendingar hingað svo vonandi fer það að komast í gang bráðum því þetta er ekkert annað en tær snilld :)

kathleen-2

 

Ég fór svolítið hamförum fyrst ég fékk tækifæri til að panta mér og pantaði því rosalega mikið af allskonar dóti frá þeim en ég ætla dreifa því í nokkrar færslur. Fyrsta færslan verður því alfarið tileinkuð uppáhalds Kathleen Lights! Ef þið vitið ekki hver hún er þá er það kannski ekkert skrítið en hún er rosalega vinsæll youtube-ari sem ég fylgist með eins og mér sé borgað fyrir það. Hún hjálpaði til við að útbúa þennan fallega augnskuggafjarka sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan og ég er gjörsamlega dolfallin yfir þessu setti.

kathleen

Ég ætla að fara frekar út í formúlu augnskuggana í sér færslu því hún er í alvörunni engri lík. Ég gargaði þegar ég potaði fyrst í augnskuggana svo einstakir eru þeir. Augnskuggarnir hennar Kathleen eru eins og þið líklegast sjáið allir hlýtóna brúnir/brons litir og inniheldur settið tvo matta liti og tvo málmliti. Fjarkinn kallast Where the light is og er það algjörlega við hæfi.

kathleen_lights-22

Hér sjáið þið svo litaprufu af litunum fjórum. Ókei… þetta er náttúrulega bara fáránlegt…. og ekki skrítið að ég hafi gargað… því þetta er ein stroka… bókstaflega ein stroka! Ég hef aldrei á ævi minni prufað litsterkari augnskugga.

kathleen_lights-18

Að sjálfsögðu prufaði ég að leika mér aðeins með þá um leið og ég tók þá upp úr kassanum og bjó til þessa massífu koparförðun. Ég notaði alla litina hennar Kathleen nema í innri augnkrókinn bætti ég við öðrum lit sem ég keypti einnig. Ég grunnaði allt augnlokið með litnum Glow alveg upp undir augabrúnina. Liturinn er alveg mattur en hann er mjög ljós svo hann nær alveg að birta undir augabrúninni þrátt fyrir að vera mattur. Næst tók ég litinn Cornelius sem er virkilega fallegur hlýtóna ljósbrúnn og bjó til halo skyggingu. Ég setti hann sem sagt yst á augnlokið, innst á augnlokið og bjó til brú þar á milli í globus línunni. Cornelius er líkt og Glow alveg mattur.

kathleen_lights-15

Það er ekki að ástæðulausu að merkið heitir ColourPop því að litirnir poppa svo sannarlega upp á augnlokið! Það var akkúrat það sem ég gerði með hinum tveimur litunum sem eftir eru. Fyrst tók ég Blaze sem er dökkur antík gulllitaður og setti hann í rauninni yfir Cornelius. Næst tók ég Kathleen Lights sem er fullkominn koparlitaður og smellti honum á mitt augnlokið til að birta yfir förðuninni. Ég setti litina svo nákvæmlega eins meðfram neðri augnháralínunni.

kathleen_lights

Áður en að Kathleen hjálpaði til við að skapa þennan augnskuggafjarka þá bjó hún til sinn eiginn varalitalit og er það þessi hér sem kallast Lumiére. Reyndar bjó hún til varalit og varablýant en ég keypti ekki blýantinn heldur bara varalitinn. Þessi er bleiktóna nude litur sem ég held að get í alvörunni farið öllum sem prófa hann.

kathleen_lights-21

Liturinn er alveg mattur og er þetta fyrsti matti varaliturinn sem ég hef prófað þar sem mér líður ekki eins og ég sé með mattan varalit á vörunum. Þegar ég smelli vörunum saman er eins og ég sé með varasalva, svo kremkenndur er varaliturinn. Varalitirnir sem ég keypti mér frá ColourPop fá alveg sér færslu því ég er sko ástfangin af þeim!

kathleen_lights-10

Hér sjáið þið svo heila förðun sem öskrar Kathleen Lights frá A til Ö. Ég er allavega ótrúlega ánægð með hana og þessir litir sem hún hefur skapað eru alveg að mínu skapi. Mig grunar að ég eigi eftir að klára þessa og þurfa að kaupa mér aðra því þeir eiga eftir að vera svo mikið notaðir. Þá er eins gott að ColourPop fari að senda til Íslands :)

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vörurnar eru í einkaeigu

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Besti ísinn í Köben!
Ég smakkaði besta ísinn í bænum i gær en Heiðrún systir hefur verið í heimsókn í danaveldi þessa helgina. Það kom ekki annað til grei...
Áramótabomba
Jæja, vonandi eruð þið búin að eiga yndisleg jól og borða nóg af góðum mat. Ég er allavega búin að því ;) Mér finnst alveg við hæfi að hafa ...
Prjónuð slaufa fyrir Bleiku slaufuna
Ef það er eitthvað málefni sem liggur mér næst þá er það Bleika slaufan. Í ár langaði mig að gera eitthvað öðruvísi en að fjárfesta einu...
powered by RelatedPosts