Brúnkuolía: Hvernig ég nota hana

Vörurnar í færslunni fékk ég að gjöf

_MG_9285-2

Ég skal alveg viðurkenna það að ég ætlaði að skrifa þessa færslu í gær en allur dagurinn minn fór í Pokémon Go… Er það ekki fullkomlega eðilegt annars? :) Í færslunni langar mig hinsvegar að segja ykkur frá því hvernig ég ber á mig brúnkuolíu þó það tengist Pokémon ekki neitt! 

Ég nota brúnkukrem/olíu rosalega sjaldan einfaldlega vegna þess að ég nenni oftast ekki að bera það á mig en þegar ég læt mig hafa það þá er þetta aðferðin sem ég nota og mig langaði að deila henni með ykkur. Undanfarið hef ég mikið verið að nota St Tropez brúnkuolíurnar en ég ætla að segja ykkur aðeins betur frá þeim í lýsingunni hér fyrir neðan.

Tökum þetta skref fyrir skref – ég held að það sé best :)

_MG_9224

1. Áður en ég byrja á því að bera á mig brúnkuolíuna skelli ég mér alltaf í sturtu og undirbý húðina vel. Það fyrsta sem ég geri er að raka á mér lappirnar. Mér finnst algjör nauðsyn að raka mig áður en ég ber á mig olíuna þar sem að brúnkuvörur setjast oft á eða í kringum hárin á löppunum og þær geta því orðið pínu doppóttar ef ekki er búið að raka hárin af.

2. Áður en ég fer í sturtu er ég búin að setja sykur í litla skál svo eftir raksturinn tek ég hann, sett nokkra dropa af vatni í skálina og bý til einhverskonar sykurleðju. Blönduna nota ég til að skrúbba af líkamanum allar dauðar húðfrumur svo brúnkan verði sem jöfnust og festist ekki við þurrkubletti og annað. Ástæðan fyrir því að ég nota sykur en ekki einhvern tilbúinn líkamsskrúbb er einfaldlega vegna þess að ég vil ekki að skrúbburinn skilji eftir sig einhvern raka-/fituhjúp á húðinni sem getur haft áhrif á jafna dreifingu olíunnar. Sykurinn skilur ekkert slíkt eftir sig þegar honum hefur verið skolað af en hans eina hlutverk er að losa húðina við dauðar húðfrumur. Ég nota samt aldrei sykurskrúbbinn í andlitið þar sem hann er alltof grófur til þess en í staðin nota ég minn hefðbundna andlitsskrúbb.

3. Eftir að ég hef skrúbbað allan líkamann og andlitið tek ég „loofa“ (hvað sem það nú heitir á íslensku) eða svamp, set sápu á hann og þríf allan líkamann. Ég nota síðan hreinsiburstann minn og andlitssápu til að þrífa andlitið en í þessu skrefi er mikilvægt að skola alla sápu af líkamanum áður en stigið er úr sturtunni.

4. Þegar ég kem úr sturtunni þurrka ég vel allan líkamann og bíð í svona 10 mínútur áður en ég ber á mig brúnkuolíuna til að vera viss um að allar svitaholur sé nokkuð lokaðar eftir heitu sturtuna.

_MG_9205-2

5. Þá er komið að aðalmálinu – að bera á sig olíurnar. Ég byrja alltaf á því að bera olíuna á líkamann en í það verk nota ég St Tropez Luxe Dry brúnkuolíuna. Ég er alveg ótrúlega hrifin af þessari olíu og hversu auðvelt það er að vinna með hana en þetta er algjör lúxusvara sem ég nota miklu oftar en brúnkukrem. Olían lyktar af sítrónugrasi og fleiri kryddjurtum og í olíunni eru pínulitlar glimmeragnir sem skolast þó af í fyrstu sturtunni eftir notkun. Brúnkan sem kemur af olíunni er líka rosalega falleg. Hún er alls ekki appelsínugul eða of dökk heldur mjög eðlileg og létt. Það er svo hægt að bæta umferðum af olíunni á húðina til að byggja upp lit ef þið viljið vera dekkri. Það er mjög mikilvægt að hrista glerflöskuna vel fyrir notkun en eftir að hafa hrist flöskuna set ég nokkra dropa af olíunni á þann líkamspart sem ég ætla að byrja á en ég byrja oftast á framhandleggjunum. Þegar ég er búin að setja olíuna á annan framhandlegginn tek ég stóra púðurburstann frá Real Techniques og dreifi vel úr olíunni á húðina. Ég á ekki brúnkuhanska en það er vel hægt að redda sé með bursta þar sem maður hefur mikla stjórn á olíunni með honum. Ég nota alltaf hringlaga hreyfingar þegar ég nota burstann alveg eins og ég geri þegar ég ber á mig farða. Svona ber ég olíuna á allan líkamann nema andlitið.

_MG_9242-2

6. Þegar ég er búin að bera olíuna á allan líkamann þá sný ég mér að andlitinu. Til þess að fá eðlilega brúnku á andlitið nota ég St Tropez Luxe Facial olíuna. Þessi olía er mjög spes þar sem þetta er eiginlega ekki olía heldur meira eins og brúnkuvatn. Samkvæmt leiðbeiningunum á henni á að setja 2-3 dropa af henni í lófann og bera svo á andlitið. Ég prófaði þetta í fyrsta skipti sem ég notaði olíuna en þessi aðferð hentaði mér alls ekki. Olían er rosalega fljót að þorna og 2-3 dropar voru langt frá því að vera nóg til að bera á allt andlitið. Þetta dropamagn er samt meira en nóg til að gefa manni fallega brúnku svo ef ég myndi setja mikið meira á mig þá myndi andlitið verða alltof dökkt. Eftir smá tilraunastarfsemi fann ég miklu betri leið til að bera dropana á mig en í staðin fyrir að setja dropana beint á andlitið set ég 3-4 dropa í Embryolisse rakakremið mitt og nudda höndunum saman til að blanda dropunum við kremið. Næst ber ég það jafn á allt andlitið og með þessari aðferð fær maður virkilega fallega, náttúrulega og umfram allt jafna brúnku. Ég mæli því með henni frekar en aðferðinni sem er lýst á umbúðunum :)

7. Líkaminn drekkur olíuna í sig mjög fljótt svo manni er alveg óhætt að fara í föt um leið og maður er búinn að bera hana á sig án þess að liturinn smitist í náttfötin. Ég hef allavega ekki lent í vandamálum með það ennþá, hvorki þegar kemur að náttfötunum eða rúmfötunum mínum. Þegar ég vakna daginn eftir ásetningu skelli ég mér alltaf í sturtu til að skola af mér litlu glimmeragnirnar en maður þarf að bíða í 4-8 tíma með olíuna á sér áður en maður bleytir líkamann.

Jæja ég vona að þessi færsla hafi gefið ykkur betri skilning á brúnkuolíum og hvernig hægt er að bera þær á sig. Það má svo að sjálfsögðu nota sömu aðferðir þegar kemur að brúnkukremum.

Ég hef þá skilað þessari færslu af samviskunni minni og er farin út að leita að fleiri Pokémonum… Sjáumst við annars ekki bara hress á Pokémon-vappi úti? ;)

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vörurnar í færslunni fékk ég að gjöf

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Árshátíðarbrúnkan
Þá fara árshátíðirnar að skella á og sumar hverjar hafa nú þegar átt sér stað. Það er því ekki seinna vænna að ég sýni ykkur nokkrar sniðugar v...
Snilld fyrir fólk eins og mig... sem nennir ekki í ræktina
Mig langaði að deila með ykkur smá snilld sem ég fann í nóvember og hef verið að nota óspart síðan þá! Svona til þess að gefa ykkur smá ...
Þrjár ST Tropez áferðir = ein fullkomin brúnka
Eins og ég var búin að lofa á Instagraminu mínu (rannveigbelle) í síðustu viku þá ætlaði ég að sýna ykkur þessar flottu vörur frá ST Tropez. ...
powered by RelatedPosts