Bobbi Brown hreinsiolía

_MG_4819

Þessi færsla er tileinkuð öllum ofnæmispésum og þeim sem eru með viðkvæma húð! Um daginn fékk ég litla prufu af Bobbi Brown hreinsiolíu og varð svo yfir mig hrifin af henni að ég fékk söluvöruna til mín í myndatöku til að geta sagt ykkur betur frá henni og afhverju ég varð svona hrifin.

Ég hef ekki mikla reynslu af Bobbi Brown vörunum en alltaf þegar ég hugsa um merkið þá ratar hugur minn meira að förðunarvörum en snyrtivörum en merkið inniheldur þó fullt af flottum húðvörum sem ég hef í rauninni aldrei vitað af nema kannski seint á síðasta ári.

_MG_4840

Hreinsiolían sem um ræðir í þessari færslu kallast Soothing Cleansing Oil og hentar öllum húðgerðum og þá sérstaklega viðkvæmri húð einstaklega vel. Olían er ætluð til þess að hreinsa óhreinindi af yfirborði húðarinnar og tekur af allan farða eins og ekkert sé. Hreinsiolían inniheldur í rauninni margar tegundir af öðrum olíum eins og til dæmis Kukui hnetuolíu, sólblómaolíu, ólífuolíu og Jojoba olíu. Hnetuolían sem ég nefndi hér fyrst hjálpar húðinni að viðhalda raka enda stútfull af omega 3 og 6 fitusýrum. Hinar olíurnar sjá svo um að brjóta niður farða og önnur óhreinindi. 

Þegar maður les sig til um notkun olía á andlitið þá virðist aðaláhyggjuefni fólks vera það að olían muni stífla svitaholurnar svo bólur byrja að myndast. Einnig hefur fólk með olíumiklahúð áhyggjur af því að olían muni auka náttúrulega olíuframleiðslu húðarinnar og þannig gera hana enn olíumeiri. Þetta er í rauninni misskilningur hjá fólki því að olían hjálpar til við að koma jafnvægi á olíuframleiðslu húðarinnar sem og berst gegn bólum þar sem olíur innihalda oft bólgueyðandi, bakteríueyðandi og róandi efni fyrir húðina sem getur hjálpað bólunum að gróa og komið í veg fyrir myndun nýrra. Það er því engin ástæða að hræðast olíur en að sjálfsögðu verður hver og einn að finna það sem hentar þeim :)

_MG_4853

Ég er mest búin að nota Bobbi Brown hreinsiolíuna til að taka af mér farða eftir langan dag en það er eitthvað við að nota hana sem mér finnst ótrúlega róaandi. Ég hugsa að það sé vegna þess að ég tek mér eina til tvær mínútur í ferlið og nudda andlitið vel með olíunni til að ná öllum óhreinindunum af húðinni.

Þegar ég nota olíuna pumpa ég tveimur til þremur pumpum í annan lófann og nudda þeim svo báðum saman. Næst breiði ég úr olíunni yfir allt andlitið mitt, þar á meðal augnsvæðið og byrja á því að nudda olíuna inn í húðina. Þegar ég er búin að nudda húðina vel og ná í burtu öllum óhreinindum af henni færi ég mig yfir á augnsvæðið. Hér er mikilvægt að vera ekki of harðhentur og nudda varlega af allan augnfarða. Ef þið eruð búin að leyfa olíunni að sitja á honum á meðan þið voruð að nudda andlitið ætti augnfarðinn að renna mjög auðveldlega af.

_MG_4860

Hér sjáið þið eina pumpu af olíunni í lófanum 

Þegar ykkur finnst þið vera búin að ná af öllum óhreinindum með ólíunni skal bleyta lófana með volgu vatni og nudda því yfir til að skola hana af. Nú gerist svolítið merkilegt en um leið og vatnið snertir olíuna þá verður hún hvít á litinn, nánast eins og mjólk. Þannig skolar maður hana auðveldlega af svo hún situr ekki eftir á húðinni eftir hreinsun. Í lokin af hreinsuninni þurrka ég alltaf húðina með rökum þvottapoka til að vera viss um að öll olían sé farin af.

Bobbi_Brown_Soothing_Cleansing_oil

Olían virkar rosalega vel til að hreinsa farða af húðinni en þar sem ég hef voða lítinn roða þá get ég ekki sagt til um hvort að Jasmínu blómin sem olían inniheldur hjálpi til við að minnka hann. Olían er gjörsamlega litlaus eins og þið sáuð á myndinni hér fyrir ofan en af henni er bara þessi týpíska olíulykt með smá Lavender keim ef að nefið mitt er ekki að blekkja mig. 

_MG_4853

Hreinsiolían er ekki sú ódýrasta sem þið finnið á markaðnum en ef þið eruð ofnæmispésar eins og ég og húðin ykkar þolir ekki hvað sem er þá er klárlega þess virði að prófa hana. Nú þekki ég það ekki nógu vel en það gæti verið að hægt sé að biðja um prufu í verslunum áður en þið fjárfestið í einu stykki en alls ekki taka mig á orðinu þar sem ég hef í rauninni ekki hugmynd um það. Mig grunar samt að þið verðið jafn hrifin af olíunni og ég þegar þið prófið hana :) Þetta er nefnilega æðisleg hreinsivara til að dekra við húðina og þó hún kosti sitt þá fer lítið af henni mjög langa leið þar sem pumpan hjálpar þér að stjórna algjörlega magninu sem þú notar í hvert einasta skipti.

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vöruna í færslunni fékk ég að gjöf

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Three Part Harmony frá Origins
Ég spurði á Instagram hvort þið mynduð vilja sjá umsögn af nýjustu vörunum úr Three Part Harmony línunni frá Origins og það kom mér á óvart hve...
Sílikonspaði fyrir maska
Ég var í Normal hérna úti í Danmörku um daginn - eigum við eitthvað að ræða það hvað ég elska þessa búð! Á rölti mínu um búðina kom ég auga á "...
Húðhreinsunin mín í nýju landi + Nýi svampurinn frá RT
Fyrir ykkur sem hafið ekki komið til Danmerkur áður þá er rakinn hérna alveg svakalegur. Mér fannst eins og ég hafi labbað á vegg þegar ég ko...
powered by RelatedPosts