Bleikar varir fyrir vorið

Vörurnar í færslunni fékk ég að gjöf

IMG_3126

Eins og ég sagði þegar ég opnaði síðuna þá ætla ég að leggja áherslu á skemmtilegar og heiðarlegar umfjallanir sem fólk getur leitað til í daglegu amstri. Við skulum því leggja atburði gærdagsins aðeins til hliðar í nokkrar mínútur til að fjalla um eitthvað örlítið léttara en ég vil þó að sjálfsögðu sjá sem flesta á Austurvelli á eftir enda viðrar vel til mótmæla! Tökum samt smá pásu fyrir herlegheitin og skoðum fallega vor-varaliti. Það ætti að dreifa huganum smá, ekki satt? ;)

IMG_3131

Clinique Pop varalitina kannast kannski margir við en ég er með tvo bleika liti til að sýna ykkur sem smella að sjálfsögðu beint inn í vorið og sólina sem er aðeins búin að láta sjá sig í dag. Pop varalitirnir hafa sína sérstöðu í varalitaheiminum því þeir eru ekki einungis varalitir heldur eru þeir varalitir með innbyggðum primer. Primerinn hjálpar til við að næra varirnar og sjá til þess að liturinn renni jafnt og auðveldlega á þær við ásetningu. Varlitirnir innihalda svo meðal annars Shea og Murumuru smjör sem sjá um að veita vörunum raka yfir daginn. Mér persónulega finnst varalitirnir viðhalda raka vel þó að þeir gefi kannski ekki vörunum mínum raka á þann hátt að þær eru vel nærðar eftir notkun.

Fyrsti bleiki liturinn sem ég hef til að sýna ykkur er númer 11 og heitir Wow Pop. Ég dýrka þennan! Þetta er hinn fullkomni ljósbleiki litur fyrir mitt litarhaft en hann hefur bláan undirtón án þess þó að sá eiginleiki sé of áberandi. Áferðin á varalitunum er glansandi, mjög mjúk og umfram allt þægileg á vörunum.

Næsti bleiki liturinn sem ég hef til að sýna ykkur er númer 10 og heitir Punch Pop. Þessi er örlítið dekkri en Wow Pop og er flottur fuchsia litur (ég veit ómögulega íslensku þýðinguna á þeim lit). Ef þið fílið ekki ljósa varaliti eins og þennan sem ég sýndi ykkur fyrst þá er um að gera að skoða Punch Pop. Þessi er nefnilega í dekkri kantinum en nær á sama tíma að vera bjartur og frískandi.

Clinique_pop_styrkleiki

Hér sjáið þið svo styrkleikaskala varalitanna. Endingin á varalitunum er ágæt og endast þeir mjög vel þó þeir dofna smá þegar maður fer að borða. Eftir að hafa borðað þurfti ég að bæta aðeins við litinn á vörunum en hann var þó ekki alveg horfinn heldur bara aðeins búinn að tapa styrkleika sínum. Áferðin á varalitunum er æðisleg og ég finn nánast ekkert fyrir þeim á vörunum sem er stór kostur í mínum augum. Varalitirnir eru þar að auki alveg lyktarlausir fyrir ykkur sem leitið að því. Litastyrkleikinn er svo draumi líkast en maður þarf rétt svo að láta litinn snerta varirnar til að fá sama styrkleika á þær og þú sérð í varalitnum sjálfum.

IMG_3112

Áður en ég lýk færslunni má ég til með að sýna ykkur þennan Chubby Stick augnskugga sem er einnig frá Clinique fyrst hann er nú bleikur! :) Ég hafði aldrei prufað Chubby Stick-in fyrir augun frá Clinique og var því mjög spennt að prófa þennan augnskugga. Ég varð líka smá heilluð af stifta hugmyndinni því það er svo þægilegt að geyma einn svona í veskinu sínu til að henda á augnlokin ef þú ert að fara eitthvað fínt en hefur ekki tíma til að farða þig frekar.

Liturinn sem ég hef til að sýna ykkur er númer 07 og er í litnum Pink & Plenty. Liturinn er ótrúlega fallegur en þegar ég opnaði hann fyrst bjóst ég bara við ósköp venjulegum bleikum augnskugga svo hann kom mér tölvuert á óvart. Þetta er nefnilega bleikur litur sem byggir á gulllituðum grunni svo gullagnirnar endurvarpast fáránlega fallega þegar að ljósið fellur á augnskuggann. Til að nota þennan skrúfa ég upp oddinn á augnskugganum og renni honum nokkrum sinnum yfir augnlokið. Næst tek ég hreinan blöndunarbursta og blanda úr augnskugganum svo að liturinn sé alveg jafn. Flóknara er það ekki :) Ég las umsagnir um þennan á netinu og það sem flestir virðast kvarta yfir er að þessi einstaki litur er kannski svolítið þurr í ásetningu. Ég fann samt lítið fyrir því sjálf þar sem ég blandaði hann alltaf út með blöndunarbursta eftir að ég setti hann á mig til að jafna litinn sem kom á augnlokið.

Clinique_chubby_stick

Hér sjáið þið svo styrkleikaskala vörunnar. Augnskugginn endist allan daginn án þess að klessast út um allt eða renna í línur (allavega á mínum augnlokum). Litastyrkleikinn er góður og setur léttan lit á augnlokin en áferðin mætti vera aðeins kremkenndari að mínu mati.

IMG_3131

Allt í allt er ég mjög hrifin af þessum bleiku viðbótum við snyrtiborðið mitt og ég hef notað þær óspart síðan ég fékk þær. Leynast einhverjar bleikar vörur í snyrtibuddunni hjá ykkur sem eru ómissandi fyrir vorförðunina ykkar sem ég ætti að kíkja á?

P.S. Næstu vikur ætla ég að leggja áherslu á vor- og sumarlínur frá merkjum sem og vorlegar farðanir svo fylgist vel með! :)

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vörurnar í færslunni fékk ég að gjöf

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Fashion Fanatic pallettan frá MAC
Ég fékk í hendurnar í gær þessa glæsilegu palllettu með MAC sem ég ætla að gera eitthvað flott áramótalúkk með á næstunni en mig langaði nú sam...
Ég elska þessa!
Það er ekki oft sem ég finn varavöru sem fer ekki af vörunum mínum vikunum saman - enda er ég dugleg að breyta til! Það gerðist þó þegar ég p...
Jaclyn Hill x Morphe... Worth it?
Jæja er ekki kominn tími til að ég fari aðeins yfir Jaclyn Hill pallettuna mína!? Þessa er ég núna búin að nota að ég held í yfir mánuð og því ...
powered by RelatedPosts