Benecos

Vörurnar eru í einkaeigu

1-1-of-15Í ljósi greinarinnar um paraben sem ég birti hér í fyrradag langaði mig að fylgja henni svolítið eftir og einungis hafa umfjallanir um snyrtivörur í þessari viku sem eru algjörlega lausar við paraben. Ég verð seint kölluð manneskja sem notar bara eithvað lífrænt hvort sem það er matarkyns eða förðunarvara en mig langaði að breyta aðeins til þar sem að hálfgerð sprengja hefur orðið í úrvali lífrænna snyrtivara hér á landi undanfarið. Fyrsta merkið sem mig langaði að tala aðeins um og segja ykkur frá er Benecos. Merkið er reyndar einungis BDIH vottað sem þýðir að það inniheldur náttúruleg efni og er því náttúrulega vottað en ekki 100% lífrænt en þar sem það er parabenlaust langaði mig að fjalla um það. Allar líkur eru á því að einhver ykkar þekkja til merkisins sem er búið að vera fáanlegt hér á landi í einhvern tíma. Ég hef alltaf vitað af merkinu en aldrei keypt mér neitt frá því sem þegar ég fer að pæla í því er kannski frekar skrítið þar sem ég er með ofnæmi fyrir parabenum og þessar vörur innihalda ekkert slíkt. Ég breytti þessu þó um daginn og fjárfesti í nokkrum vörum og langaði mig að sýna ykkur þær aðeins betur og segja ykkur aðeins frá merkinu þar sem að sagan á bakvið snyrtivörufyrirtæki eru oft áhugverðari heldur en maður býst við.

1-2-of-151

 

Benecos er þýskt fyrirtæki stofnað af hjónum sem hófu útbreiðslu varana með einum kynningarstandi á Viavaness sýningunni í Þýskalandi. Síðan þá hefur fyrirtækið vaxið og má finna Benecos standa víða um heiminn. Vörurnar frá fyrirtækinu eru með BDIH vottun eins og ég nefndi hér fyrir ofan og eru nokkrar af þeim sérstaklega merktar sem vegan. Það á því alltaf að vera hægt að ganga að upplýsingum um vörurnar sem innihalda engin skaðleg eða óæskileg aukaefni eins og paraben. Ég las á netinu að fyrirtækið leitast við að vera eins umhverfisvænt og hægt er og því er minna lagt í umbúðirnar hjá þeim en hjá mörgum öðrum fyrirtækjum. Ég veit ekki með ykkur en ég elska fallegar umbúðir um snyrtivörur en maður hugsar kannski alltof sjaldan um hversu mikil eyðsla og mengun fer í þær. Þú kaupir þér til dæmis ilmvatn. Það er plast utan um kassann, inni í kassanum er einangrun svo að flaskan verður ekki fyrir skaða og síðan kemstu að flöskunni. Hversu mikinn pening og mengun myndi það spara að fá bara flöskuna beint? Þetta er alveg pæling svo ég ákvað að láta það ekki trufla mig að umbúðirnar hjá Benecos eru ekkert stórfenglegar það þýðir bara að ég er að minnka kolefnisfótspor mitt :)

Ég keypti mér þessar þrjár vörur frá Benecos sem þið sjáið á myndunum hér. Ég keypti mér reyndar varalit og púður líka en varalitinn fáið þið að sjá í sér færslu, svo fallegur er hann!

Þegar ég sá fyrst þennan augnskuggafjarka þá heillaði hann mig ekkert sérstaklega. Það var ekki fyrr en ég potaði aðeins í augnskuggana og sá hversu fallegir litirnir voru að ég varð að kaupa hann. Augnskuggarnir virðast ekkert vera neitt spes þegar þú horfir á þá en þeir eru frekar litsterkir og mjúkir og ég get alveg ímyndað mér að þeir fari ekki illa með augnlokin mín eða þurrki þau upp þar sem þeir innihalda náttúruleg efni.

MG_9349

Hér sjáið þið sýni af litunum. Það að augnskuggarnir eru ágætlega litsterkir segir ýmislegt því oft eru litareiginlekar náttúrulegra augnskugga ekkert sérstaklega góðir. Ekki samt búast við einhverju svakalega litsterku þegar þið prófið þá, þeir eru svona miðlungs litsterkir. Augnskuggarnir blandast virkilega vel þegar á augnlokið er komið og auðvelt er að byggja þá upp til að fá enn sterkari lit. Vegna þess að auðvelt er að blanda þá saman eiga þeir svolítið til að renna saman og til að koma í veg fyrir þetta er nauðsynlegt að nota einhverskonar augnskuggaprimer áður en þessir augnskuggar eru settir á augnlokið. Mér finnst samt þessi koparlitaði sjúklega fallegur, sá ljósasti hentar fullkomlega sem highlight undir augabrúnirnar og sá dekksti er frábær í skyggingar.

Ég er highlighteróð! Mér finnst ekkert fullkomna andlitið eins og góður highlighter og því varð ég að sjálfsögðu að kaupa þennan þar sem þetta er óvenjulegast highlighter sem ég hef séð á ævi minni. Hann virðist vera eins og virkilega ljósbleikur kinnalitur þegar horft er á hann en svo þegar hann fer á húðina þá er hann það alls ekki. Í púðrinu eru gylltar agnir svo að ljóminn frá þessum er frekar gylltur. Því meira sem þú vinnur highlighterinn á húðina því gylltari verður hann. Gylltu agnirnar í púðrinu eru ekki stórar glimmerflygsur sem mér finnst æðislegt því það er ekkert sem mér finnst skemma góðan highlighter meira en glimmer. Þessi highlighter er mjög daufur sem lætur hann henta fullkomlega fyrir hversdagsnotkun fyrir okkur sem viljum alltaf hafa einhvern bjarma á okkur á hverjum degi. Það væri jafnvel hægt að setja þennan yfir allt andlitið svo mildur er ljóminn. Ég nota minn samt mest til að birta undir augunum þegar ég er búin að bera á mig hyljara.

Ég hef átt einn hvítan eyeliner um ævina og sá var frá Sephora. Þessi er merktur sem hvítur en hann er ekki alveg hvítur heldur meira svona beinhvítur sem þýðir að hann er aðeins drappaður. Liturinn heillaði mig því ég er búin að vera að leita að eyeliner í svona tvö ár sem er ekki alveg hvítur og ekki of húðlitaður til að setja inni í vatnslínuna mína. Þegar maður ber svona ljósan lit á vatnslínuna þá stækkar það augun og getur jafnvel dregið úr þreytueinkennum eins og roða. Hann virkar því pínu eins og strokleður á þreytu og það fær stóran plús í kladdann hjá mér. Þessi eyeliner er ekkert rosalega kremkenndur og ég held að það sé vegna þess að formúlan er umlukin við sem á það til að draga mikinn raka í sig úr formúlunni. Samt sem áður er ekkert mál að bera hann í vatnslínuna svo að formúlan er ekki of kremkennd og ekki of hörð sem er mjög fínt.

Það er eitthvað sem heillar mig við að bera á mig náttúrulega snyrtivöru miklu meira en ég bjóst við. Eigið þið ykkur einhverja uppáhalds lífræna/náttúrulega vöru sem er ómissandi? :)

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vörurnar eru í einkaeigu

3 Comments

 1. Avatar
  Ásdís Gunnarsdóttir
  24/06/2015 / 20:16

  Takk fyrir gott blogg. Mig langar þó að benda bloggurum almennt á mikilvægi þess að lesa sér vandlega til um vörumerki áður en skrifað er um þau og taka texta ekki beint frá heildsölum. Benecos er með BDIH-vottun og sá staðall er ekki með lífræna vottun, einungis náttúrulega. Benecos er því náttúrulega vottað merki en ekki lífrænt vottað. Þetta sérðu á öllum sölusíðum þeirra erlendis ef þú lest á milli línanna. Sem reglulegur lesandi bloggsins væri gaman að sjá færslu frá þér um þessa staðreynd og leiðrétta þannig fyrri staðhæfingar um lífræna vottun merkisins.

  • Rannveig Hafsteinsdóttir 24/06/2015 / 21:04

   Hæ Ásdís.

   Ég fékk einmitt ábendingu um það fyrr í kvöld og lagaði þetta um leið. Ég hef bara þýtt vitlaust það sem stóð á netinu því ég var ekki með neinn texta frá heildsölu merkisins sem ég vann upp úr.

   Takk svo fyrir lesturinn og ábendinguna, það síðasta sem ég vil gera er að skrifa einhverja tóma steypu :)

   • Avatar
    Ásdís Gunnarsdóttir
    24/06/2015 / 23:05

    Frábært, takk fyrir og takk fyrir gott blogg! ;)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Trylltur Becca Gjafaleikur
Ef þú ert að fylgja mér á Instagram þá hefur þú vonandi tekið eftir því að ég setti af stað hörku gjafaleik í gang í gær þar sem ég er að gef...
Janúar uppáhöld
Betra seint en aldrei ekki satt? Hér eru þeir hlutir sem ég notaði mest í janúar! L'Oréal Colorista Silver Shamopoo - Besta fjólubláa sjampó s...
Hátíðarlúkk #4 (Too Faced)
Jæja þá er ég mætt aftur eftir stutt jólafrí og langar að halda áfram með hátíðarsýnikennslurnar mínar. Ég vona að þið hafið haft það sem allra...
powered by RelatedPosts