Aflitaðir könglar fyrir kransagerð – DIY

IMG_9579Það er nú búin að vera heldur betur tilraunastarfsemi í gangi heima hjá mér undanfarnar vikur og er þessi færsla afrakstur einnar þeirra. Það sem þið sjáið á myndinni hér fyrir ofan eru könglar sem ég er búin að aflita. Hljómar kannski svolítið steikt (sem það í rauninni er) en ég er ótrúlega sátt með útkomuna!

Þessa dagana er ég er öll í föndri fyrir hátíðirnar þó ég sé kannski ekki alveg byrjuð að leyfa mér að verða spennt fyrir jólunum strax. Þetta árið verða fyrstu jólin mín að heiman sem er mjög skrítin tilhugsun og á örugglega bara eftir að verða skrítnari þegar að desember rennir í hlað. Þar sem þetta eru fyrstu jólin mín að heiman þá þarf ég svo sannarlega að föndra eitt stykki aðventukrans! Frá því ég var lítil hef ég verið spennt fyrir að föndra minn eigin krans þar sem ég fæ að ráða nákvæmlega hverju einasta smáatriði – allt frá kertum niður í köngla. Ég er búin að fara fram og tilbaka í hausnum mínum með allskonar hugmyndir, sumar góðar, aðrar… ekki svo góðar og ég er loksins komin með ágæta mynd af honum. Ég lofa að sýna ykkur lokaútkomuna þegar ég klára kransinn en til þess að geta byrjað á honum vantaði mig hvíta köngla. Maður setur ekki markið lágt fyrir fyrsta aðventukransinn svo að sjálfsögðu þurfa könglarnir að vera hvítir en ekki bara venjulegir og brúnir.

Fyrsta skrefið var því að henda sér út og tína köngla. Þeir könglar sem mér finnst fallegastir og henta best í svona aflitun koma af furu. Þeir eru nógu sterkir og grófir til að þola aflitunina og verða einstaklega fallegir þegar þeir þorna. Áður en ég hófst handa við að gera þá hvíta lét ég könglana sem ég tíndi liggja í heitu sápuvatni í klukkutíma og skolaði þá svo vel. Þegar að könglar eru blautir þá loka þeir sér og er því mikilvægt að þurrka þá áður en lengra er haldið. Ég dreifði því úr könglunum mínum á álpappír sem ég hafði lagt á ofnplötu og setti könglana svo inn í ofn á sirka 150-200 gráður og hafði þá inni þar til að þeir voru allir búnir að opna sig. Hitinn frá ofninum þurrkar bæði könglana og drepur öll skorkvikindi sem kunna að hafa leynst í könglunum.

Þegar öllu þessu er lokið og könglarnir búnir að kólna eftir ofninn kem ég þeim fyrir í stórri krukku með loki (þessa fékk ég í Rúmfatalagernum). Næst fylli ég krukkuna alveg upp í topp af klór og skrúfa lokið fast. Það þarf ekki endilega að nota krukku en þið getið notast við fötu eða eitthvað slíkt í staðinn en þá þarf bara að passa að könglarnir séu alveg huldir klór og fljóti ekki upp svo þeir séu ekki hálfir ofan í klórnum. Hér til vinstri sjáið þið þurrkaða könglana í krukkunni en hér til hægri er ég búin að hella klór yfir þá. Passið ykkur á klórnum samt því hann getur skemmt fötin ykkar á nokkrum sekúndum, best er að vera í fötum sem mega skemmast.

Eftir sólarhring í klórnum getið þið tekið könglana upp úr en ég kaus að láta mína liggja í tvo sólarhringa svo þeir yrðu nú alveg hvítir. Eftir sólarhring var klórinn samt orðinn rosalega skítugur hjá mér og fullt af einhverri hvítri drullu hafði sest á botninn á krukkunni. Ég skipti því um klór og lét könglana liggja áfram í nýja klórnum hinn sólarhringinn.

Eftir þann tíma skal taka könglana upp úr klórnum, skola þá og leyfa þeim að þorna á álpappír eða einhverju slíku þar til þeir opna sig aftur.

IMG_9590

Hér sjáið þið svo mun á köngli sem hefur legið í klórnum og aflitast og öðrum óaflituðum.

IMG_9587

 

Það fyndna er samt að báðir þessir könglar lágu jafn lengi í sama klórnum en þessi dökkbrúni var sá eini af öllum könglunum sem aflitaðist ekki. Frekar skrítið en mjög skemmtilegt að sjá muninn.

IMG_9602

Virkilega skemmtileg tilraun þrátt fyrir að vera pínu vesen og ég hlakka alveg rosalega til að gera gullfallegan fyrsta krans úr þessum hvítu könglum :)

P.S. Munið svo endilega eftir því að hella ekki klórnum í vaskinn eftir notkun því hann getur verið skaðlegur fyrir umhverfið. Hellið frekar klórnum aftur í flöskuna og geymið til að aflita fleiri köngla því það er vel hægt að endurnýta hann eða þá fara með hann í gám fyrir spilliefni í Sorpu :)

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:

4 Comments

 1. Avatar
  Elín Fanndal
  17/11/2015 / 10:03

  Hæ ertu þá með hreinan klór eða blandaðan ?

  • Rannveig Hafsteinsdóttir 17/11/2015 / 10:17

   Ég notaði bara hreinan klór sem ég keypti í Bónus. Það er samt í góðu lagi að blanda smá vatni saman við ef klórinn dugar ekki til að fylla krukkuna :)

 2. Avatar
  Jónína Lýðsdóttir
  17/11/2015 / 10:39

  Og hvað gerirðu svo við klórinn?

  • Rannveig Hafsteinsdóttir 17/11/2015 / 10:56

   Ég hellti seinni skammtinum aftur í flöskuna til að geta notað seinna ef ég vildi aflita fleiri köngla en fyrri skammtinn setti ég aftur í flösku til að fara með í Sorpu – ég ætla að bæta því við textann svo fólk fari ekki að hella klórnum í vaskinn :)

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Fataskápahack
Þeir sem eru að fylgja mér á Instagram (endilega fylgið mér undir @rannveigbelle ef þið eruð eki að því nú þegar) sáu fataskápahackið sem ég ...
Hátíðarlúkk #4 (Too Faced)
Jæja þá er ég mætt aftur eftir stutt jólafrí og langar að halda áfram með hátíðarsýnikennslurnar mínar. Ég vona að þið hafið haft það sem allra...
5 hlutir sem ég ætla að gera í desember
Fara á jólahlaðborð Ég hef ekki farið á jólahlaðborð í mörg mörg ár og ég get ekki beðið eftir að skella mér á eitt slíkt núna í desember. Ég ...
powered by RelatedPosts