Gullpenninn frá YSL… hvernig á að nota hann!

Vörurnar í færslunni fékk ég að gjöf

Ég veit þið trúið ekki hversu lengi þessi færsla er búin að vera í kollinum á mér! Við erum örugglega að nálgast svona tvö ár svo það er ekki seinna vænna en ég fari að hysja upp um mig buxurnar og skrifi hana loksins! Gullpenninn frá YSL eða Touche Éclat eins og hann heitir nú er ein af þessum snyrtivörum sem á það til að rugla marga í ríminu. Penninn gerði það svo sannarlega við mig fyrst þegar ég prófaði hann en ég bjóst bara við venjulegum hyljarapenna en síðan þá hef ég sko heldur betur lært að nota hann rétt. Touche Éclat penninn kom fyrst á markað árið 1992 svo hann er hvorki meira né minna en jafn gamall og ég blessaður! Penninn var hugverk Terry de Gunzburg sem var fengin af YSL til þess að byggja upp snyrtivörulínu merkisins. Núna er hún reyndar eigandi sinnar eigin línu, By Terry ef einhver af ykkur kannast við hana. Terry hefur stundum verið nefnd Steve Jobs snyrtivörubransans þar sem hún fann upp á vöru sem var á undan sínum samtíma en fyrst um sinn hafði enginn áhuga á gullpennanum því enginn skildi í raun hvað hann átti að gera. Það tók hana til dæmis þrjú ár bara til þess að sannfæra stjórn YSL um að setja pennann á markað!

En hvað gerir eiginlega þessi frægi Touche Éclat gullpenni? Penninn er í sjálfu sér ekki hyljari heldur ljómapenni. Fyrst um sinn kom hann einungis í einum lit en síðan þá hefur litaúrvalið sem betur fer breikkað og núna fæst hann í fleiri litum. Pennann á að nota til þess að færa andlitinu birti á nákvæmlega þá staði sem viðkomandi kýs. Penninn inniheldur ekki shimmer heldur ljómandi agnir sem eru í nógu þunnri formúlu til þess að liggja létt á yfirborði andlitsins og formúlu sem hægt er að nota í pennaformi! Ástæðan fyrir að Touche Éclat er í pennaformi er svolítið skemmtileg en Terry vildi eitthvað auðvelt sem hægt væri að nota með einni hendi. Hún var sjálf að sjá um ung börnin sín á þessum tíma og hafði því oftast bara eina hendi til þess að gera hluti með og því vildi hún geta klikkað ofan á pennan en ekki skrúfa vöruna niður eins og tíðkast oft. Penninn er síðan með bursta að framan en Terry fékk burstann sendan fyrir slysni af verksmiðjunni en framan á pennanum átti að vera svampur. Eðlilega veltur maður því fyrir sér hvað kemst mikil vara í svona litlum penna en YSL segir að það þarf um 200 klikk til þess að tæma pennann.

Þar sem þetta er ljómapenni skuluð þið ekki nota pennan eins og hvern annan hyljara! Ef þið gerið það munuð þið verða fyrir vonbrigðum. En hvernig á eiginlega að nota þennan fræga gullpenna?!

Ég mæli með að byrja alltaf á því að klikka pennan nokkrum sinnum og setja vöruna á handarbakið. Þannig hefur þú miklu meiri stjórn á vörunni sem er í burstanum á pennanum og ert ekki að setja of mikið af vöru á hvern stað. Ég legg síðan alltaf bara burstann í vöruna á sem er á handarbakinu mínu ef ég þarf meira.

Þar sem að gullpenninn er ekki beint hyljari, eins og ég nefni hér fyrir ofan, byrja ég alltaf á grunninum mínum, set á mig farða/hyljara eða bæði áður en ég set á mig Touche Éclat. Passið ykkur samt á því að setja ekki neitt púður á ykkur áður en þið setjið á ykkur gullpennann þar sem að, líkt og með aðrar fljótandi vörur og púður, þá blandast þær ekki vel saman.

Næst set ég vöruna úr gullpennanum á öll þau svæði andlitsins sem mig langar að birta yfir. Hérna er mikilvægt að hafa í huga að ég skrifa birta yfir, ekki hylja. Ég set því pennan yfir og undir augabrúnina, inn í innri augnkrók, á kinnbeinin mín og aðeins innar, yfir efri vörina mína, aðeins undir hliðarnar á neðri vörinni minni (sleppi undir miðjunni), mitt á hökuna, aðeins undir kinnarnar (undir þar sem ég myndi setja skyggingarvöru) og smá á milli augabrúnanna og rétt þar niður. Þetta eru allir þeir staðir á andlitinu mínu sem ég vil draga fram.

Næst tek ég fingurna eða blöndunarbursta úr gervihárum og dreifi úr vörunni. Hér á myndinni dreifði ég ekki alveg fullkomlega úr vörunni til þess að þið mynduð sjá svona sirka hversu mikið hann birtir yfir þeim stöðum sem ég set hann á.

Hér er ég síðan búin að blanda vöruna almennilega við húðina og þið sjáið hvað andlitið mitt er miklu meira mótað ef þið berið þessa mynd saman við fyrstu myndina, þar sem ég var ekki með gullpennan á andlitinu.

Nú hugsa eflaust margir hvað er öðruvísi við pennann og einfaldlega ljósan hyljara. Munurinn felst einna helst í formúlunni þar sem að hyljarar eru oftast þéttari og þykkari í sér, sitja meira ofan á húðinni og sjást þannig meira. Touche Éclat hefur það að markmiði að vera hvað náttúrulegastur og því er formúlann léttari og hann hylur ekki heldur birtir yfir húðinni ykkar. Það er svo ykkar að meta hvort þetta sé vara sem að hentar ykkar þörfum. Fyrir mig sem elskar að vera með hvað náttúrulegasta húð er Touche Éclat mjög hentugur.

Vonandi hef ég aðeins getað svipt hulunni af vöru sem vefst oft fyrir mörgum en séuð þið með einhverjar spurningar þá skuluð þið ekki hika við að senda mér athugasemd hér fyrir neðan eða línu í pósti <3

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vörurnar í færslunni fékk ég að gjöf

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Maskari sem þolir ýmislegt!
Það er löngu komið að þessari færslu hjá mér þar sem þessi maskari og maskaragrunnur er búinn að vera í stanslausri notkun hjá mér í nánast all...
Fyrir og eftir með nýja farðanum frá YSL
Það er nú heldur betur langt síðan ég gerði fyrir og eftir færslu með farða! Það er því kominn tími til að bæta úr því og tilvalið að sýna ykku...
Hvernig þú getur náð auðveldum Ombré liner
Ég er ekki frá því að það sé smá sumarfílingur í þessari færslu... eins steikt og það kann að hljóma í frostinu hérna í DK og óveðrinu heima á ...
powered by RelatedPosts