Auðveld brúðarförðun með Softlight frá Smashbox

Vörurnar á færslurnar fékk ég að gjöf

Eins og ég var búin að lofa langaði mig að birta hér auðvelda brúðarförðun með Smashbox Softlight pallettunni sem ég fjallaði um í síðustu viku. Þá færslu er hægt að sjá HÉR. Ég ákvað að nota bleiku, bronsuðu og mauve tónana úr pallettunni til að gera rómantíska augnförðun en rómantísk förðun er að sjálfsögðu fullkomin fyrir stóra daginn ;)

Mig langaði að gera brúðarförðun sem myndi henta mörgum, væri ekki of ýkt og umfram allt rosalega mjúk og falleg. Mér finnst alltaf aðalatriðið þegar kemur að brúðarförðunum að húðin sé sem náttúrulegust og fær þá í staðin þá hjálp sem hún þarf til að jafna lit hennar og gefa henni heilbrigðan ljóma. Það var þá það sem ég hafði í huga þegar ég lagði af stað með þessa förðun.

Frá hægri til vinstri: Dr.Hauschka Bronzing Powder, Smashbox Cover Shot Softlight, MAC Painterly Paint Pot, Bobbi Brown Extra Lip Tint Bare Pink, Mac Fix+, MAC Strobe Cream Redlight, Makeup Geek Americano, RIMMEL Wake Me up Concealer, MAC Full of Joy, Estée Lauder Sumptuous Bold Volume Mascara, Smashbox Camera Ready BB Water.

Hér getið þið séð allar vörurnar sem ég notaði. Mig langaði að hafa húðina jafn mjúka og rómantíska og augnförðunina svo ég notaði virkilega léttar og ljómandi vörur á hana. Ég byrjaði á því að setja Strobe kremið frá MAC á allt andlitið og gerði síðan augnförðunina. BB vatnið frá Smashbox fór síðan yfir allt andlitið mitt og RIMMEL hyljaran notaði ég undir augun. Ég festi BB kremið og hyljarann með lausu glæru púðri sem sést reyndar ekki hér á myndinni en það gerði ég til að allt myndi haldast á sínum stað það sem eftir var af deginum. Ég notaði Bronzing púðrið frá Dr.Hauschka til að gefa húðinni smá hlýju og síðan fannst mér ekki koma annað til greina en að para kinnalitinn saman við bleiku augnskuggana á augnlokinu. Full of Joy kinnaliturinn frá MAC er alveg rosalega skemmtilegur þar sem hann hefur í sér lithverfan bleikan tón og er ljómandi. Glöggir taka kannski eftir því að á myndinni sjáið þið ekkert ljómapúður en það er einmitt vegna þess að ég notaði Softlights pallettuna frá Smashbox til að birta yfir húðinni minni! Ég notaði efstu tvo litina saman og ég er að segja ykkur það náttúrulegri ljóma finnið þið ekki! Fullkominn ljómi fyrir brúðarfarðanir. Á varirnar setti ég svo Bare Pink litinn úr vorlínu Bobbi Brown en hann er bæði léttur og nærandi fyrir varirnar.

En eigum við ekki að fara aðeins betur yfir það hvernig ég gerði augnförðunina? Ég byrjaði að sjálfsögðu á því að grunna á mér augnlokið og til þess notaði ég Painterly Paint Pot frá MAC. Næst tók ég dökkbrúnan mattan augnskugga í litnum Americano frá Makeup Geek og setti hann yst á augnlokið og dróg hann aðeins inn í glóbusinn. Mig langaði að dýpka aðeins skygginguna yst á augnlokinu svo ég notaði þennan dökka lit fyrst að það var enginn litur sem er svo dökkur í Softlight pallettunni. Til að blanda út þennan dökka lit tók ég Beach House úr Smashbox pallettunni og blandaði hann vel inn í húðina. Þann lit setti ég líka í glóbuslínuna. Næst tók ég Aglow og setti á mitt augnlokið. Innst á auglokið setti ég Spectacle og bleytti burstann minn með Fix+ frá MAC til að gera hann extra litsterkan. Í innri augnkrók blandaði ég svo litunum Spectacle og Keeper en það er einmitt sama kombó og ég notaði sem ljómapúður. Á neðri augnháralínuna setti ég Americano yst síðan blöndu af Spectacle og Keeper á restina af augnháralínunni. Ég blandaði þessum litum svo saman með Beach House. Til að ýkja aðeins efri augnhárlínuna áður en ég setti á mig Estée Lauder maskarann bar ég þunna línu af Americano meðfram augnhárunum í staðin fyrir eyeliner. Ég pressaði síðan litinn létt niður með litlaputta svo hann myndi ekki smitast.

Ég er allavega voðalega lukkuleg með þessa förðun og ég er að elska það að taka förðunarmyndir í náttúrulegri dagsbirtu með nýju vélinni minni! Ég er reyndar líka að elska það að mála mig þegar ég sé hvað ég er að gera en ég málaði mig alltaf nánast blindandi áður en ég fór í laserinn um daginn. Það er því aldrei að vita nema það fari að birtast fleiri svona færslur hjá mér. Vonandi elskið þið það bara jafn mikið og ég! ;)

Fylgja:
Rannveig
Rannveig

Rannveig heiti ég og er eigandi þessarar bloggsíðu. Ég er 26 ára gömul, fædd og uppalin í Kópavogi. Núna bý ég þó í Kaupmannahöfn þar sem ég starfa sem markaðsstjóri. Takk fyrir að stoppa við á þessari litlu síðu minni og kíktu endilega á fleiri greinar sem ég hef skrifað!

Share:
Vörurnar á færslurnar fékk ég að gjöf

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt.


x

Þú gætir haft áhuga á þessu

Brúðkaupsmessan í Köben
Síðustu helgi skelltu ég og betri helmingurinn minn okkur á brúðkaupsmessuna hér í Köben. Messan er haldin nokkrum sinnum á ári þar sem helst...
Ég var að opna nýja Youtube rás!
Jæja ég ákvað bara að henda mér í djúpu laugina og opnaði nýja Youtube ráð tengda þessu bloggi! Ég var alltaf með Youtube rás tengda Belle.is þeg...
Brúðkaupsfærslur
Fyrir þá sem ekki vita þá er ég að fara að gifta mig á næsta ári. Við hjónaleysin höfum verið saman í 6 ár+ og síðasta sumar skellti Magnús sér á...
powered by RelatedPosts